Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Krefjast sniðgöngu G20 fundar í Sádi-Arabíu

22.10.2020 - 06:27
epa07849292 Prince Abdulaziz bin Salman, the Saudi Minister of Energy, gives a press conference in Jeddah, Saudi Arabia, 17 September 2019. Prince Abdulaziz bin Salman said that his country's oil production will be fully restored by the end of September, after the drone attack that knocked out almost half of the country's production.  EPA-EFE/STR
 Mynd: EPA
Fjörutíu og fimm bandarískir þingmenn leggja fast að Bandaríkjastjórn að sniðganga fund G20 ríkjanna í Sádi-Arabíu í næsta mánuði nema þarlend yfirvöld geri gangskör að því að auka og bæta mannréttindi.

Fyrr í mánuðinum ákvað Evrópuþingið að halda fjölda fulltrúa Evrópusambandsins í lágmarki á fundinum, einnig sem viðbragð við mannréttindabrotum í Sádi-Arabíu.

Meðal þess sem bandarísku þingmennirnir krefja stjórnvöld í Sádi-Arabíu um er að leysa aðgerðasinna úr fangelsi, þar á meðal nokkrar konur, hætta hernaðarafskiptum í Jemen og gera grein fyrir þætti sínum í morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi í Istanbúl árið 2018.

Kröfurnar þykja vandræðalegar fyrir stjórnvöld í Sádi-Arabíu sem sáu G20 fundinn sem kjörið tækifæri til að bæta stöðu sína gagnvart alþjóðasamskiptum.

Hvorki hafa komið viðbrögð við kröfunni frá Mike Pompeo utanríkisráðherra Bandaríkjanna né yfirvöldum í Sádi-Arabíu.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV