Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Fimm í farsóttarhúsi í Önundarfirði

22.10.2020 - 10:46
Níu skipverjar á togaranum Júlíusi Geirmundssyni hafa myndað mótefni við kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Tuttugu og tveir af 25 manna áhöfn greindust með kórónuveiruna. Sjómennirnir fengu að fara í land í dag.

Áhöfnin hefur þurft að halda sig um borð eftir að meiri hluti hennar greindist með kórónuveiruna við sýnatöku á sunnudag. Seinni sýnatakan, sem var í gær, leiddi í ljós að níu hafa myndað mótefni og eru því frjálsir ferða sinna. Þrír eru ekki smitaðir. Þeir eru í sóttkví.

Fimm í farsóttarhúsi í Önundarfirði

Þrettán eru með virkt smit og þurfa því að vera í einangrun. Einn þeirra verður áfram um borð í skipinu og sjö fara í húsnæði á eigin vegum. Fimm eru í farsóttarhúsi í Holti í Önundarfirði. 

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir ekki þörf á miklum mannskap þangað. 

„Rauði krossinn og lögreglan sér um obbann af þessu og Heilbrigðisstofnunin hleypur aðeins undir bagga til dæmis með mat.“

Veikir í hátt í þrjár vikur áður en sýni voru tekin

Enginn mannanna er alvarlega veikur. Þeir sem eru með mótefni hafa jafnað sig af veirunni, sem tekur alla jafna nokkrar vikur. Skipverjar voru með einkenni í tæpar þrjár vikur áður en sýnin voru tekin. 

„Almennt er það þannig að ef fólk er með einhver einkenni sem gætu verið COVID-19 hvetjum við það til að koma í sýnatöku. Þegar maður er úti á rúmsjó á frystitogara er erfiðara að koma því við og ég vænti þess að það hafi kannski að einhverju leyti spilað inn í málið. Það er þá mat þeirra sem stjórna hvaða ákvarðanir eru teknar þar og ég get ekki svarað fyrir þær,“ segir Gylfi.

Hraðfrystihúsið Gunnvör gerir Júlíus Geirmundsson út. Forsvarsmenn fyrirtækisins svöruðu ekki fréttastofu þegar leitað var eftir viðtali í dag. Þeir neituðu jafnframt veita viðtal þegar leitað var eftir því í gær.

Segja að eftir á að hyggja hefði átt að sigla fyrr til hafnar

Rétt fyrir fréttatíma klukkan 19 kom tilkynning frá Gunnvöru um að fljótlega eftir að einkenna varð vart á skipinu hafi verið haft samband við Heilbrigðisstofnun Vestfjarða en ekki hafi þótt ástæða til að kalla skipið til hafnar. Þegar smit greindist svo um borð eftir þrjár vikur á veiðum var siglt í land. Í tilkynningunni segir að eftir á að hyggja hefði átt að sigla fyrr til hafnar.