Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Á sjötta hundrað hermenn á Íslandi

22.10.2020 - 04:08
Lockheed Martin F-35 Lightning II herþota.
Bandarísk F-35 herþota. Mynd: USAF/Wikimedia Commons
Búist er við að milli fimm og sex hundruð bandarískir og kanadískir hermenn verði á Íslandi næstu vikurnar.

Fréttablaðið greinir frá því í dag að hér séu 250 hermenn úr bandaríska flughernum vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins ásamt 300 manna liði kanadíska flughersins sem er hér vegna kafbátaeftirlits. Verkefnin munu vera ótengd.

Ásgeir Erlingsson upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar kveður í samtali við blaðið ástæður mannfjöldans vera strangar sóttvarnarreglur vegna kórónuveirufaraldursins, strangari en almennt gildi um almenna ferðamenn.

Nú séu tvöfaldar áhafnir á Íslandi tímabundið en áhafnaskipti standi yfir. Þau taki þrjár til fjórar vikur vegna krafna um sóttkví liðsmanna en almennt taki áhafnaskipti fáeina daga.