Tvær vikur til stefnu og forskot Bidens aldrei meira
„Að einhverju leyti hlýtur maður að ætla að aukið fylgi Bidens skýrist til dæmis af því að fólk er farið að mæta á kjörstað. Fólk er búið að gera upp hug sinn sem gerist ekki alltaf fyrr en nær dregur kosningum,“ segir Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði.
„Síðan hefur kosningabarátta Bidens verið hnitmiðuð. Hún hefur ekki verið áberandi en hann hefur verið með viðburði þar sem fólk kemst töluvert að honum. Hann kom sérstaklega vel út úr þessum málfundi sem var í sjónvarpinu í síðustu viku,“ segir hún.
Silja Bára segir að kosningabarátta Trumps árið 2016 hafi að miklu leyti gengið út á að sverta mannorð Hillary Clinton „Það hefur ekki verið að ná flugi gagnvart Biden. Þegar Trump hefur ekki jafn góðan óvin að eiga við þá gengur honum verr að höfða til kjósenda. Biden hefur náð að sigla lygnan sjó í gegnum þessa kosningabaráttu. Meira að segja þetta mál sem snýr að syni hans virðist ekki hafa náð að sverta hann nóg til að Trump geti spilað á það,“ segir hún.
Þá hafi COVID-19 veikindi forsetans haft áhrif á kosningabaráttuna. „Trump virðist nærast á þessari athygli sem hann fær á fjöldafundum. Hann hefur ekki náð að halda jafn marga og hann hefði viljað. Það myndi skýra minni innblástur kjósenda. Að einhverju leyti er framboð hans ekki að ná að víkka út kjósendagrunninn. Þau sem hafa verið óákveðin eru frekar að færa sig yfir til Bidens,“ segir Silja.
Um 28 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar kosið
Nú þegar hafa um 28 milljónir kjósenda þegar greitt atkvæði, mun fleiri en áður eru dæmi um. Donald Trump hefur margoft lýst efasemdum sínum um áreiðanleika póstkosninga og sagt að þær bjóði upp á „einhver mestu kosningasvik sögunnar.“
Joe Biden hefur hins vegar hvatt fólk til að bíða ekki eftir kjördegi heldur greiða atkvæði utan kjörfundar hið fyrsta. Þannig nýti fólk atkvæðisrétt sinn á sama tíma og það forðist þá smithættu sem fylgir fjölmenni á kjörstað.
Kosningakerfið í Bandaríkjunum er nokkuð frábrugðið því sem þekkist víða annars staðar. Forsetinn er ekki kjörinn í beinni kosningu þar sem vægi atkvæða á landsvísu ræður hver stendur uppi sem sigurvegari, heldur kýs fólk kjörmenn sem velja svo forseta. Hvert ríki hefur ákveðinn fjölda kjörmanna og til að ná kjöri þarf forsetaefnið að njóta stuðnings samtals 270 þeirra.
Samkvæmt samandregnum niðurstöðum kannana nýtur Biden stuðnings 290 kjörmanna og Trump 163.
Skipting kjörmanna miðað við kannanir
Erfitt er að spá fyrir um niðurstöðuna í á öðrum tug ríkja en þótt Trump hafi betur í öllum sveifluríkjunum, þar sem munurinn á milli frambjóðendanna er minnstur, og þeim sem eru talin líkleg til þess að falla hans megin núna, þá dugir það ekki til sigurs. Hann fengi þá 248 kjörmenn af þeim 270 sem hann þarf til að halda embætti.
Hvaða ríki styðja hvaða frambjóðanda?
Um hvaða málefni er kosið?
Kosningarnar virðast að miklu leyti snúast um að ná tökum á útbreiðslu kórónuveirunnar, sem bandarískum stjórnvöldum hefur ekki tekist, og efnahagslega viðspyrnu vegna faraldursins.
„Fyrir Demókrata og dygga kjósendur þeirra er stóra málið að skipta um forseta en ég held að það sem flestir Bandaríkjamenn standa saman um sé að ná tökum á efnahagsástandinu og byggja það upp á ný,“ segir Silja Bára.
Framan af árinu naut Trump meiri trausts í efnahagsmálum en það hefur nú snúist við. „Það er lykilatriði þar sem fjöldinn allur af Bandaríkjamönnum hefur komið illa út úr faraldrinum og þarf að treysta á aðgerðir stjórnvalda til að skapa störf og fá jafnvel bætur til að brúa bilið á meðan það er að gerast,“ segir Silja Bára.
„Trump hafði treyst á að efnahagurinn yrði kominn í gang núna og að fólk myndi muna að staðan í efnahagsmálum var góð í upphafi árs en sú von hans hefur orðið að engu. Tengt þessu er að hann lofaði því að það yrði komið bóluefni. Hefði hann getað reitt það fram fyrir kosningarnar hefði það getað snúið baráttunni honum í vil,“ segir hún.
Ólíkar nálganir í helstu álitamálum
Frambjóðendurnir virðast vera ósammála um hvernig eigi að leysa flest þau vandamál sem bandarískt samfélag stendur nú frammi fyrir.
Stefnir í meirihluta Demókrata í öldungadeildinni
Samhliða forsetakosningunum verða kosnir 33 af 100 fulltrúum í öldungadeild Bandaríkjaþings, þar sem Repúblikanar eru nú í meiri hluta, og allir 435 þingmenn í fulltrúadeild þingsins, þar sem Demókratar eru í meiri hluta. Auk þess verða kosnir ríkisstjórar í nokkrum ríkjum.
Líkur flokka og fjöldi þingsæta í Öldungadeildinni
Súluritið hér að ofan sýnir mismunandi líkur á dreifingu þingsæta meðal Repúblikana og Demókrata. Líkurnar eru reiknaðar með því að vega kannanir og keyra fjölda sýndarkosninga þar sem niðurstöður kannana eru lagðar til grundvallar. Úr þessum sýndarkosningum fást mismunandi niðurstöður því við allar kannanir eru skilgreind vikmörk. Þannig getum við sagt sem dæmi, að í 14,1 prósenti allra sýndarkosninganna fengju Demókratar 51 þingsæti í öldungadeildinni og meiri hluta þingsæta.
„Það eru minni líkur en meiri að Repúblikanar haldi meiri hlutanum. En meiri hluti Demókrata, ef þessar spár ganga eftir, gæti verið mjög tæpur. Jafnvel þannig að það standi á jöfnu og þá er það varaforseti sem klýfur jafnvægið í atkvæðagreiðslum. Ef Biden vinnur og Repúblikanar halda Öldungadeildinni erum við að horfa á endurtekningu á því sem Obama bjó við sín síðustu ár í embætti. Það verða miklar hindranir lagðar í veg þeirra verkefna sem Biden vill reyna að koma í framkvæmd,“ segir Silja Bára.
„Ef Biden sigrar og Demókratar sigra, og það eru eiginlega allar líkur á að Demókratar haldi meirihluta í fulltrúadeildinni, þá fær Biden að minnsta kosti tvö ár þar sem hann getur siglt lygnan sjó og komið flestum sínum málum í framkvæmd, þar á meðal gæti verið að fjölga dómurum í hæstarétti og efnahagsaðgerðir til að sporna við áhrifum faraldursins,“ segir hún.
Stefnir í rólegar tvær vikur
Trump og Biden mætast í kappræðum á fimmtudaginn. Slökkt verður á hljóðnema þess frambjóðanda sem ekki hefur orðið þar sem síðustu kappræður þeirra einkenndust af frammíköllum og óvægnum yfirlýsingum. Ólíklegt er að kappræðurnar hafi mikil áhrif á fylgi frambjóðenda og þá stefnir í óvenjulega rólegar tvær vikur fram að kosningum.
„Obama er að mæta á framboðsfundi til að tala fyrir hönd Bidens. Hann nýtur enn gríðarlegrar hylli meðal almennings í Bandaríkjunum, sérstaklega Demókrata og óákveðinna kjósenda. Hann er talinn geta haft töluverð áhrif á stemninguna fyrir framboði Bidens. Það verða síðan æ fleiri fundir með Trump þar sem hann mun reyna að auka stemninguna í kringum sitt framboð,“ segir Silja Bára.
„Það hafa komið þrjú óvænt mál, skattaskýrslur Trumps, veikindi hans og þetta myndband af syni Bidens. Ekkert þessara mála hefur náð að hrista upp í kosningabáráttunni eins og maður hefði búist við. Það er spurning hvort það sé enn eitt októberundrið framundan sem gæti hrist eitthvað upp í þessu en að öllum líkindum heldur þetta áfram eins og verið hefur. Biden og Harris halda áfram að leggja áherslu á fámenna fjarfundi á meðan Trump heldur áfram að halda þessu stóru opnu fundi þar sem stuðningsmenn hans fá að heyra í honum og hylla,“ segir hún.