Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Óviðeigandi með öllu“

21.10.2020 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
„Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill taka skýrt fram að hún styður ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem ýta undir slíkt,“ segir í tilkynningu frá lögreglunni um umdeild merki á búningi lögreglukonu að störfum, sem vakið hefur talsverða athygli í dag. Þá verði málið tilkynnt til eftirlitsnefndar um störf lögreglu.

Í tilkynningu lögreglunnar kemur fram að á búningi konunnar megi sjá merki „sem eru óviðeigandi með öllu.“ „Embættið harmar jafnframt mjög að hafa valdið fólki særindum vegna þessa og biður alla hlutaðeigandi innilegrar afsökunar. Skilaboðin sem mátti lesa úr merkjunum eru í engu samræmi við fræðslu, stefnu og markmið lögreglunnar.“

Myndin sem um ræðir var tekin af Eggerti Jóhannessyni, ljósmyndara Mbl, vorið 2018. Á henni sést lögreglukona að störfum með þrjá fána á vesti sínu sem taldir eru hafa tengingu við hatursorðræðu.

Einn þeirra er svokallaður Thin Blue Line fáni, sem er tákn fyrir samstöðu lögreglumanna víða um heim. Merkið hefur þó á síðustu árum orðið mjög umdeilt og sagt vera svar við Black Lives Matter hreyfingunni. Annar er svokallaður Vínlandsfáni; grænn fáni með norrænum krossi sem er víða tengdur við öfga hægrihópa. 

Fyrr í dag tilkynnti lögreglan að lögreglumenn þurfi nú að fjarlægja öll merki af búningum sínum, sem ekki eru í samræmi við reglugerð.

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jóhannesson - Morgunblaðið