„Þar eru nokkur eldstöðvakerfi, fjögur kerfi og þau hafa öll sýnt einhvers konar merki um virkni. Hvort sem er með skjálftum eða landrisi eða landsigi og þar austar höfum við Brennisteinsfjallakerfið sem er eina eldstöðvakerfið sem hefur ekki sýnt neina sérstaka virkni á síðustu áratugum. Svo er Hengillinn austastur og þar hefur verið að síga og rísa á víxl,“ segir Halldór.
Að sögn Halldórs er erfitt að segja til um hver áhrif stóra skjálftans í gær gætu orðið. Á því svæði sem hann varð séu nú minni líkur á jarðskjálftum, til skamms tíma litið.
„En aftur á móti geta þessir skjálftar aukið áraun á nálægum svæðum og þar af leiðandi aukið líkindi á skjálftum sem eru kannski einhverja kílómetra til austurs eða vesturs frá upptakasvæðinu,“ segir Halldór.
Hann segir að vera kunni að styttist í næstu goslotu. „En hvort þetta sé beinn aðdragandi að henni eða ekki er erfitt að segja. Ef þetta er aðdragandi að slíkri goslotu, þá gæti það þess vegna tekið tugi eða hundruð ára,“ segir Halldór.