Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lögreglukonan hafnar því að fánarnir séu rasískir

21.10.2020 - 14:24
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jóhannesson - Morgunblaðið
„Ég er pínu sorgmædd því þetta er árás á mína persónu. En ég veit betur og verð bara að gleyma þessu,“ segir lögreglukonan Anita Rut Harðardóttir sem sést á mynd sem hefur verið deilt á samfélagsmiðlum. Þar er því haldið fram að merkin sem prýði lögreglubúning hennar hafi tengingu við hatursorðræðu en því vísar hún alfarið á bug. „Ég hafna því að þetta séu rasísk tákn enda stendur lögreglan ekki fyrir slíku.“

Fánarnir hafa vakið mikla athygli á samfélagsmiðlinum Twitter. Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi lögreglunnar, sagði málið litið alvarlegum augum og Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn, sagði að þeim skilaboðum hefði verið komið á framfæri að ekkert ætti að vera á lögreglubúningum sem ekki væri nú þegar á þeim.

Anita segir að merkin sem þarna sjáist séu svokölluð „patch“ sem lögreglumenn um allan heim séu að skiptast á. Hún sé til að mynda að senda eitt slíkt til lögreglumanns í Bretlandi sem hafði samband í gegnum Instagram. Mjög margir lögreglumenn séu með svona merki inn á sínum lögreglubúningum.

Anita bendir á að myndin sé 3 ára gömul  og að ætla að túlka fánana sem eitthvað neikvætt og rasískt komi henni í opna skjöldu. Eitt merkið sé til að mynda Thin Blue Line.  Bláa línan á þá að vera tákn lögreglunnar sem sé mitt á milli óreiðu og röð og reglu.  Í Kanada hefur lögreglumönnum  verið bannað að nota þetta merki þar sem þetta þyki ekki gefa raunsæja mynd af starfi lögreglunnar.

Anita hefur  starfað í götulögreglunni í 21 ár og segist túlka fánana sem jákvæð skilaboð. Hún geti ekki tekið ábyrgð á því ef einhver vilji túlka þá öðruvísi. „Það er þarna verið að ljúga upp á mig og mína stétt. Ég er pínu sorgmædd en ég veit betur og verð bara að reyna að gleyma þessu.“

Anita segir það líka umhugsunarvert hversu auðvelt það virðist að sparka í lögregluna og allt að góða starf sem hún vinni. „Það er aldrei minnst á lögreglumenn sem framlínustétt í kórónuveirufaraldrinum, til dæmis.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV