Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kristján Viðar og dánarbú Tryggva ætla að áfrýja

Mynd með færslu
 Mynd: cc
Kristján Viðar Júlíusson, einn sakborninga í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og dánarbú Tryggva Rúnars Leifssonar, annars sakborninga í málinu, hyggjast áfrýja úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur sem féllu í gær þar sem íslenska ríkið var sýknað af kröfum um bætur vegna frelsisskerðingar, fjártjóns og brots gegn æru sem þeir urðu fyrir vegna málsins. Báðir voru sýknaðir þegar málið var endurupptekið í Hæstarétti árið 2018.

Lögmenn beggja segja málsmeðferðina hafa verið fyrirsjáanlega. Báðir höfðu þeir andmælt því að Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari dæmdi í málinu á þeim forsendum að hún dæmdi í máli Guðjóns Skarphéðinssonar, eins af sakborningum málsins sem krafði ríkið um 1,3 milljarða. Ríkið var sýknað af þeim kröfum í mars síðastliðnum.

Kristján krafðist rúmlega 1,4 milljarða króna í bætur og dánarbú Tryggva krafðist 1,6 milljarða króna.

„Við hyggjumst áfrýja. Þessi málsmeðferð í héraði var fyrirsjáanlegt leikrit og undirbúningur áfrýjunarmálsins var hafinn áður en dómurinn féll,“ segir Páll Rúnar Mikael Kristjánsson, lögmaður dánarbús Tryggva Rúnars. „Dómarinn var þegar búinn að dæma í máli Guðjóns Skarphéðinssonar, við töldum að það gæti haft áhrif og óskuðum eftir að annar dómari, sem hefði ekki komið að sama máli, myndi dæma í málinu. Það er ekki hægt að ætlast til þess að dómarinn dæmi mismunandi í svipuðum málum.“

„Þetta var fyrirsjáanlegur dómur, enda sami dómari og dæmdi í máli Guðjóns Skarphéðinssonar,“ segir Arnar Þór Stefánsson lögmaður Kristjáns Viðars Júlíussonar. „Rökstuðningurinn er sá sami, eins konar Copy-paste. Við hyggjumst áfrýja þessum dómi, enda fær hann ekki staðist.“

Kristján Viðar var í fangelsi í um sjö og hálft ár eða 2.710 daga og Tryggvi Rúnar var dæmdur til 13 ára fangelsisvistar, en sat inni í rúm sex ár eða 2.193 daga.

 

Í lok janúar greiddi ríkissjóður Kristjáni Viðari, dánarbúi Tryggva Rúnars, dánarbúi Sævars Ciecielski, Guðjóni Skarphéðinssyni og Albert Klahn Skaftasyni samtals 774 milljónir í miskabætur til þeirra sem voru sýknaðir í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þar fékk Kristján Viðar 204 milljónir og dánarbú Tryggva Rúnars fékk 171 milljón. Þessar bætur komu ekki í veg fyrir frekari kröfur í málinu.