KA/Þór hefur ekki áhuga á Ítalíuför

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

KA/Þór hefur ekki áhuga á Ítalíuför

21.10.2020 - 15:30
Andri Snær Stefánsson, þjálfari kvennaliðs KA/Þórs, segir liðið engan áhuga á að fara til Ítalíu í Evrópuleik gegn Jomi Salerno. KA/Þór vill spila báða leikina hér á landi.

Andri Snær sagði þetta í samtali við handbolti.is í dag.

KA/Þór leikur í Evrópubikarkeppninni og á að spila gegn ítalska liðinu Jomi Salerno í tvígang. Andri Snær segir málið bæði einfalt og flókið.

„Við höfum engan áhuga á að fara út. Annaðhvort fara leikirnir fram heima eða að við drögum liðið úr keppni,“ sagði hann við handbolti.is.

KA/Þór hefur þegar hafið viðræður við Jomi Salerno um að leika báða leikina hér á landi en hann segir langan veg í að fá þetta samþykkt. Þar komi flækjustigið til.

Miðað við ríkjandi sóttvarnarreglur má ítalska liðið til að mynda ekki ferðast með innanlandsflugi til Akureyrar og yrði að fara með rútu frá Keflavík til Akureyrar. Þá yrði liðið að halda sig við strangar reglur vinnustaðasóttkvíar. 

Andri Snær segir stjórn KA/Þórs leggja mikla áherslu á að fá leikina norður.

„Ég vona það besta. Sannarlega væri frábært að fá tækifæri til að spila í Evrópukeppninni enda myndi það vera vítamínsprauta í handboltann á Akureyri. Á sama tíma er maður raunsær og viðbúinn öllu,“ sagði Andri Snær Stefánsson, þjálfari KA/Þórs við handbolti.is.