Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

„Heimskulegt af lögreglu að vera með Refsaratáknið“

21.10.2020 - 17:11
Marvel's The Punisher
 Mynd: Netflix/ Punisher - RÚV
George Conway, höfundur myndasögunnar um Frank Castle eða Punisher, segir það heimskulegt af lögreglumönnum að bera merki myndasöguhetjunnar. Þetta sé tákn manns sem sé útlagi og fulltrúi þeirra sem réttarríkið hafi brugðist. „Lögreglumanni með Refsaratákn ætti alltaf að vera mætt með einhverjum úr Black Lives Matter með Refsaratákn.“

Fjölmiðlar hafa í dag fjallað um mál lögreglukonu sem sést á mynd Morgunblaðsins með fjögur tákn, fest á hnífavesti hennar.  Eitt þeirra er íslenski fáninn. Hin þrjú merkin eru umdeildari,  þar má sjá hið svokallaða Thin Blue Line, Vínlandsfána og þriðja merkið sést ógreinilega en er talið vera tákn Refsarans eða Punisher sem kemur úr smiðju Marvel. 

Síðastnefnda merkið hefur verið notað af lögreglunni vestanhafs og þá sérstaklega í bylgju mótmæla í tengslum við Black Lives Matter-hreyfinguna.  George Conway, höfundur myndasögunnar um Frank Castle, sagði í samtali við Forbes í sumar að honum þætti þessi notkun lögreglunnar á merkinu vera heimskuleg.  „Refsarinn er fulltrúi þeirra sem lög og regla hafa brugðist og á að tala máli þeirra sem réttarkerfið hefur brugðist.“

Í umfjöllun Forbes kemur fram að merkið sé innblásið af merki SS-sveitar nasista úr seinni heimsstyrjöldinni. Auk lögreglunnar vestanhafs hefur merkið dúkkað upp hjá hvítum þjóðernissinnum í óeirðum þeirra í Charlottesville. Conway hefur að undanförnu reynt að sporna gegn þessari þróun og meðal annars reynt að fá mótmælendur í Black Lives Matter-hreyfingunni til að bera merkið.

Sögulega séð er Thin Blue Line til marks um stuðning við lögreglu sem komi á röð og reglu þar sem ríki óreiða.  Í frétt Guardian frá því í sumar er merkið þó sagt ala á sundrung og vanvirðingu og hafi á undanförnum árum verið tengt við hvíta öfgahyggju.  Lögreglan í Queensland í Ástralíu skar upp herör gegn merkinu fyrr á árinu en þá líkt og virðist algengt hér á landi báru lögreglumenn einnig merki Refsarans. 

Í Kanada hefur lögreglumönnum sömuleiðis verið bannað að nota Thin Blue Line-merkið. Þar telja menn að merkið skipti fólki upp í andstæðar fylkingar og geri lítið til að treysta böndin milli almennings og lögreglunnar. 

Margir vilja meina að þriðji fáninn sé svokallaður Vínlandsfáni. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, sagði í ræðu á Alþingi að þetta væri tákn sem hvítir þjóðernissinnar hefðu tekið upp á sína arma.

Peter Steele úr þungarokkssveitinni Type O Negative er talinn vera höfundur fánans en síðar tóku kynþáttahatarar í Bandaríkjunum hann yfir, meðal annars Vinlanders Social Club. 

Þótt hann sé yfirleitt notaður í tengslum við kynþáttahyggju hefur verið varað við því að bendla alla þá sem eru með fánann við slíkar hugmyndir þar sem aðdáendur Steel hafa reynt hafa reynt að ná honum aftur til sín. Þá hafa finnskir skógarvinir einnig notað fánann fyrir árlega skógarhátíð sína.