Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Gefa grænt ljós á æfingar meistaraflokka

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Gefa grænt ljós á æfingar meistaraflokka

21.10.2020 - 22:08
Ungmennafélag Íslands sendi í kvöld frá sér tilkynningu þess efnis að meistaraflokkar og afreksíþróttafólk geti hafið æfingar í mannvirkjum á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Sérsamböndin sjá um að útfæra reglurnar í íþróttamannvirkjunum til að passa að öllum sóttvörnum sér fylgt eftir. Forysta HSÍ og KKÍ sendu í kvöld frá sér ítarlega reglugerð sem fara þarf eftir ætli félög að nota sér íþróttamannvirkin til að æfa.

Áfram þarf að halda 2 metra fjarlægðarreglu á æfingum og bannað er að nota sameiginlegan búnað. Von er á frekari upplýsingum frá Almannavörnum höfuðborgarsvæðisins um málið.

Reglurnar eiga einungis við einstaklinga fædda 2004 eða fyrr en yngri börn þurfa að bíða allavega þar til í næstu viku eftir því að fá að mæta á skipulagðar æfingar.

Yfirlýsing UMFÍ:

Ákveðið var á fundi með öllum sviðsstjórum íþrótta- og tómstundasviða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í dag (21. október) að meistaraflokkar og afreksíþróttafólk geti hafið æfingar í mannvirkjum á vegum sveitarfélaganna.

Hvert sveitarfélag ákveður hvenær starfið getur hafist þar sem undirbúa þarf opnun íþróttahúsa með tilliti til starfsfólks og sóttvarnareglna sérsambanda.

Íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar hefst ekki að svo stöddu og verður það metið í næstu viku í samstarfi við ÍSÍ. Tilgangurinn með því að fresta því að hefja íþróttastarf barna er sá að forðast blöndun aðra en er til staðar í skólastarfi nú þegar.