Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Gætu breytt reglum um sóttkví í skólum

21.10.2020 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Sóttvarnaryfirvöld rannsaka nú hvernig Covid sjúkdómurinn smitast á milli barna. Barnasmitsjúkdómalæknir telur að til greina komi að breyta reglum um sóttkví í skólum ef í ljós kemur að hún skili ekki miklum árangri. 

 

Það er ekki hægt að segja margt jákvætt um Covid-sjúkdóminn. Nema kannski þetta: Hann virðist ekki leggjast mjög þungt á börn. Frá upphafi faraldursins hér á landi hafa tæplega 400 börn greinst með kórónuveirusmit. Ekkert þeirra hefur verið lagt inn á spítala, þótt nokkur hafi þurft læknisskoðun. 

„Það er algerlega stórkostlegt,“ segir Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir á Landspítalanum. „Í upphafi vissum við ekkert hvað yrði.“

Ekki nóg með að börn veikist síður, þau virðast líka smita minna innbyrðis. Í nýlegri skýrslu almannavarna kom fram að aðeins væru þekkt níu dæmi um að börn í grunn- eða leikskólum hefðu smitað hvert annað.

„Það er ekki algengt að verði smit á milli barna í skólum og leikskólum og sjaldgæft að börn smiti fullorðna í skólastarfi þótt þess séu vissulega dæmi,“ segir Valtýr.

Engu að síður koma sóttvarnaraðgerðir einna harðast niður á börnum. Hundruð þeirra hafa verið send í sóttkví, oft ítrekað, vegna þess að einhver greindist með smit í skólanum. Sóttvarnaryfirvöld kanna nú hvort ástæða sé til að breyta um stefnu í sóttvörnum í skólunum. 

„Við erum núna að skoða og rekja það í hversu mörgum tilfellum hefur það orðið að börn hafi smitað samnemendur sína í skólanum og kennara, og í hversu mörgum tilfellum eru þá fleiri en einn og fleiri en tveir sem hafa smitast,“ segir Valtýr, sem hefur áhyggjur af langvarandi skólafjarvistum barna. 

„Þegar fram líða stundir, ef við sjáum fram á það að þessar aðgerðir að senda mjög mörg börn í mjög langan tíma í sóttkví, skili ekki miklum árangri, þá hlýtur að koma til greina að breyta því. En ekki fyrr en við höfum haldbærar upplýsingar þess efnis.“

Nú ertu sjálfur heima með börnunum þínum sem eru í sóttkví, hvernig gengur það?

„Það gengur vel,“ segir Valtýr. „Þeim leiðist eins og öðrum börnum í þessum aðstæðum, en þau takast á við þetta af æðruleysi eins og flestir aðrir.“