Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fuglasmiður í opinni vinnustofu

Mynd: RÚV / RÚV

Fuglasmiður í opinni vinnustofu

21.10.2020 - 08:16

Höfundar

Sigurbjörn Helgason myndmenntakennari hefur komið sér fyrir í opinni vinnustofu í anddyri Hönnunarsafns Íslands og smíðar þar alls kyns fugla.  

Sigurbjörn var myndamenntakenntari áratugum saman en settist í helgan stein í fyrra. Hann segir að það séu ábyggilega komin hátt í 30 ár síðan hann byrjaði að gera fugla. Honum finnst skemmtilegast að láta ímyndunaraflið ráða för svo úr verða alls kyns furðufuglar.  

„Vaðfuglar finnst mér mjög skemmtilegir, það er eins og þessir ungar sem ég er að gera hér, hugmyndin er að þetta séu vaðfuglsungar,“ segir Sigurbjörn. Hver ungi er um tvo daga í vinnslu og Sigurbjörn má hafa hraðar hendur því ungarnir hafa selst upp jafnóðum og hann klárar þá.   

 „Við getum séð það á borðinu að það eru bara tveir eftir núna.“ 

En hvernig er að vinna fyrir opnum tjöldum, vera hálfgerður safngripur? 

„Mér finnst það bara skemmtilegt. Það er gaman að fá fólk til að spjalla í leiðinni. Ég hef fengið mjög góðar viðtökur.“ 

Hönnunarsafnið er lokað sem stendur á meðan hörðustu sóttvarnaraðgerðum stendur en verður opnað um leið og slakað verður á takmörkunum. Sigurbjörn er þó enn á sínum stað og verður í opinni vinnustofudvöl til 30. desember.  

Rætt var við Sigurbjörn í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.