Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Faraldurinn vaxandi á Akureyri

21.10.2020 - 14:41
Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Smitum á Norðurlandi eystra hefur fjölgað. Aðalvarðstjóri segir veiruna víða um samfélagið. Tveir vinnustaðir lokuðu í gær. Hann biður fólk að fara eftir settum reglum, ekki leita leiða til þess að komast hjá þeim.

36 eru nú í einangrun á Norðurlandi eystra og 177 í sóttkví. 24 eru í einangrun á Akureyri, 11 í Eyjafjarðarsveit og einn í Hörgársveit. Hermann Karlsson er aðalvarðstjóri hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra og í aðgerðarstjórn almannavarna. Hann segir þó nokkra fjölgun smita upp á síðkastið. 7 smit hafi bæst við síðan í gær, sum í sóttkví en önnur ekki. Faraldurinn sé sannarlega vaxandi á Akureyri og hann biður fólk að gæta vel að sér og huga að því hvert það sé að fara og hvort það sé nauðsynlegt. 

Um allt samfélagið

Uppruni sumra smita sé óljós og það geri smitrakningarteyminu erfitt fyrir. Mest fjölgi í smitum á Akureyri og í gær hafi tveir vinnustaðir verið settir í sóttkví eftir að smit greindust hjá starfsmönnum. Bæði grunnskóla og leikskóla á Akureyri var lokað í síðustu viku. Hann segir veiruna því fara um allt samfélagið. Í síðustu viku var greint frá hópsmiti í Eyjafjarðarsveit. Hermann segir búið að ná ágætleg utan um það. Aðilar tengdir því hafi verið að veikjast síðustu daga, en þeir hafi hins vegar verið í sóttkví.

Fólk leitar leiða til þess að komast undan reglum

„Auðvitað höfum við áhyggjur á meðan þetta er enn þá að vaxa, og þó svo að á meðan sumstaðar annars staðar á landinu þá sé þetta að dvína þá er þetta svo sannarlega að vaxa hjá okkur.“ segir Hermann. 

Hann hvetur fyrirtæki og fólk til þess að leita frekar leiða til þess að framfylgja þeim reglum sem settar séu frekar en að leita leiða til þess að komast undan þeim. Það sé sjónarmið sem þau verði vör við. Hann veit ekki til þess að það standi til að skima fyrir veirunni á Akureyri.