Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fánamál lögreglumanns litið alvarlegum augum

21.10.2020 - 13:50
Lögreglustöðin við Hverfisgötu hefur verið lagfærð að utan.
 Mynd: RÚV - Þ
Mál lögreglumanns, sem sést á mynd Morgunblaðsins með þrjá fána límda eða saumaða á hnífavesti sitt, er litið alvarlegum augum. „Þetta er ekki liðið,“ segir upplýsingafulltrúi hjá lögreglunni. Engir fánar eru á lögreglubúningum og ef lögreglumaðurinn hefði verið með vestið rennt upp, eins og vaninn er, hefðu fánarnir þrír ekki sést.

Myndinni af lögreglumanninum hefur verið deilt á Twitter og þar hefur því verið haldið fram að einhverjir þeirra tengist hatursorðræðu eða ýti undir slíkt.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst er myndin nokkuð gömul og hefur ítrekað verið notuð um fréttir af lögreglumálum á vef mbl.is en engin virðist hafa tekið eftir fánunum fyrr en nú.

Samkvæmt upplýsingum fréttastofu ríkir mikil reiði innan lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna þess sem sést á myndinni þar sem reglurnar séu alveg skýrar; ekkert eigi að vera á búningi lögreglumanna sem ekki er þar fyrir.

Fánarnir eru á hnífavesti lögreglumannsins og vestin eru tvílaga; fyrir innan eru skeljar sem verja lögreglumenn og síðan er rennt yfir þær.  Fánarnir þrír eru því innan á vestinu og hefðu aldrei sést ef lögreglumaðurinn hefði verið með vestið rennt upp eins og venjan er.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, upplýsingafulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að svona merkingar séu ekki liðnar. Málið sé litið mjög alvarlegum augum og starfsmönnum lögreglunnar verði gert það ljóst. Hann segist ekki geta svarað því hvort málið hafi einhverjar afleiðingar fyrir umræddan lögreglumann.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn , segir þetta algjörlega óviðeigandi og þau fyrirmæli hafi verið send til lögregumanna að það verði engir fánar eða merki sem tilheyri ekki lögreglubúninginum á fatnaði lögreglumanna. „Lögreglan styður ekki með neinum hætti hatursorðræðu eða merki sem myndu ýta undir slíkt.“

Samkvæmt upplýsingum frá ríkislögreglustjóra gilda strangar reglur um fatnað lögreglumanna en það sé á ábyrgð viðkomandi lögreglustjóra að fylgja því eftir. Ef einhver fari ekki rétt að sé það lögreglustjórans að taka á því.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV