Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Búist við að skjálftinn hafi valdið tugmilljóna tjóni

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúruhamfaratrygging Ísland
Náttúruhamfaratryggingu Íslands hafa borist nokkrar tilkynningar vegna tjóna vegna jarðskjálfta upp á 5,6 sem varð á Reykjanesi í gær og gerir ráð fyrir tugmilljóna tjóni vegna hans. Um 1.700  eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu síðan skjálftinn varð þar rétt fyrir klukkan tvö í gær, þar af 140 jarðskjálftar yfir 2 að stærð.

Hulda Ragnheiður Árnadóttir, framkvæmdastjóri Náttúruhamfaratryggingar segir að þangað hafi borist þrjár tilkynningar vegna minniháttar tjóna á innbúi, allar hafi  þær borist af höfuðborgarsvæðinu. „Það er algengt í svona málum að það séu til dæmis stórir flatskjáir sem falla um koll. Í þessum tjónum er einmitt um að ræða svoleiðis atburði. Þetta er ekki verulegt tjón sem um ræðir,“ segir Hulda Ragnheiður.

Fólk getur tilkynnt beint um tjón af völdum náttúruhamfara á vefsíðu Náttúruhamfaratryggingar. Hulda segir að ekki hafi borist fregnir af skemmdum á mannvirkjum í Krýsuvík. „En mér finnst nú líklegt að við setjum okkur í samband við þá þegar fer að líða á daginn. Það er kannski líklegast að þar hafi orðið tjón af öllum stöðum.“

Hulda býst við að fleiri tilkynningar berist þegar líður á. Hún segir að Náttúruhamfaratrygging hafi lagt mat á hversu mikið tjónið gæti orðið í heildina.  „Matið núna er talið í tugum milljóna króna. Það er mjög lágt. Mjög lág tala miðað við þær forsendur sem nú eru uppi,“ segir Hulda.