Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Týpísk hegðun fyrir svona jarðskjálftasvæði“

20.10.2020 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: Dagný Hulda Erlendsdóttir - RÚV
„Það má segja að þetta sé bara týpísk hegðun fyrir svona jarðskjálftasvæði þar sem líklega er einhver kvika á ferðinni,“ segir Halldór Geirsson, jarðeðlisfræðingur hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og dósent við skólann, um fjölda jarðskjálfta á Reykjanesskaga í ár.

Vísindamenn hjá Jarðvísindastofnun HÍ og Veðurstofunni fylgjast grannt með þeim fimm eldstöðvum á Íslandi sem líklegastar eru til að láta á sér kræla á næstunni;  Bárðarbungu, Grímsvötnum, Heklu, Kötlu og Reykjanesskaga. 

Í byrjun árs fóru eldstöðvarnar á Reykjanesskaga að bæra á sér. Íbúar á Suðurnesjum hafa fundið fyrir jarðskjálftum og vísindamenn hafa fjölgað mælitækjum til þess að geta fylgst betur með svæðinu. Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi á Reykjanesi vegna landriss á svæðinu síðan 26. janúar.

„Aðalástæðan fyrir því að það verða jarðskjálftar á Reykjanesi er að þar eru flekaskil. Það er það sem í grunninn keyrir áfram alla þessa jarðskjálftavirkni,“ segir Halldór. Mikil spenna sé nú á flekaskilunum og líklega kvikuflæði í ofanálag. 

„Það eru búnir að vera stórmerkilegir atburðir í gangi á Reykjanesskaganum á þessu ári. Það eru búin að vera þrjú ristímabil í eldstöðvakerfinu Svartsengi og að minnsta kosti eitt á Reykjanesi og við Krýsuvík. Skjálftarnir fylgja að nokkru leyti þessum ristímabilum,“ segir hann.

Halldór segir jarðskjálftahrinuna geta staðið yfir í langan tíma. „Það hafa verið hrinur sem vörðu í um ár en við vitum ekki hvort þetta sé sams konar hrina eða ekki. Það gæti alveg verið að það verði áframhald á þessu og það er ómögulegt að segja hvað það verður lengi,“ segir hann.

Hann segir ómögulegt að segja til um hvenær gjósi á svæðinu. „Við náttúrulega búum á flekaskilum og það eru fjórar til fimm eldstöðvar þarna á skaganum. Það er engin spurning um að það eigi eftir að koma eldgos þarna einhvern tímann og enn stærri skjálftar. Sennilega á næstu nokkur hundruð árum. Tímaskalarnir eru ekkert svo langir þarna,“ segir Halldór.