Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Töldu sig hafa siglt á hval – fundu skjálftann á sjónum

20.10.2020 - 18:25
Mynd: RÚV / RÚV
Skipverjar á Hraunsvík GK-075 frá Grindavík töldu sig hafa siglt á hval, kafbát eða aðra tryllu þegar jarðskjálftinn gekk yfir um miðjan dag. Mjög fágætt er að jarðskjálftar finnist á hafi úti en þeir voru á veiðislóð mjög nálægt upptökum skjálftans.

Jarðskjálftinn í dag mældist 5.6 að stærð og fannst greinilega á stórum hluta landsins, sér í lagi á vestur og suðurhluta landsins. Viktor Jónsson, skipstjóri á Hraunsvík GK-075 vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið þegar högg kom á bátinn þar sem þeir voru á leið í land úti fyrir Krýsuvík.

„Já við urðum varir við hann. Við vorum að draga netin úti fyrir Krýsuvík og vorum komnir á landstím. Þá héldum við að við hefðum keyrt á eitthvað. Stoppuðum skrúfuna og hlupum upp um allar síður og niður í vélarúm og vissum ekkert hvað hafði skeð, höggið ar svo mikið. Það er kannski ekki frásögufærandi en við héldum að við hefðum keyrt á hval, en sáum ekkert blóð. Við skildum ekki upp né niður í þessu, svo vorum við farnir að halda að þetta væri kafbátur, meiri vitleysan. Svo heyrðum við bara í útvarpinu að þetta hafi verið jarðskjálfti.

Viktor man ekki til þess að hafa heyrt um að menn finni fyrir jarðskjálfta á hafi úti. Hann segir að það hafi komið gríðarlegt högg á bátinn þegar skjálftinn gekk yfir. 

„Alveg eins og báturinn hafi lyfst upp. Maður fékk það á tilfinninguna. Ég veit ekki hvort að það hafi gerst, en tilfinningin var sú. Við vorum pottþétt bara undir honum, við vorum þar sem við köllum Hælsvík, bara rétt vestan við Krýsuvíkurberg. Við höfum pottþétt verið fast að því undir honum.“ segir Viktor. 

Hann segir að verst hafi verið sú tilfinning að þeir töldu sig hafa siglt á annan bát. Viðtal við Viktor sem Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir, fréttamaður tók á bryggjunni í Grindavík má sjá hér að ofan í heild sinni.

Nánar verður fjallað um jarðskjálftann í sjónvarpsfréttum klukkan 19.