
Þyngra högg á vinnumarkaðinn en í fyrri kreppum
Í september var atvinnuleysi hér á landi um það bil 9 prósent og hagfræðideild Landsbankans fjallar þar að auki um svokallað „dulið“ atvinnuleysi sem birtist í hröðum samdrætti í atvinnuþátttöku vegna fjölda fólks sem kýs að hverfa af vinnumarkaði.
Þá hefur fjöldi unninna vinnustunda og fjöldi starfandi fólks dregist verulega saman síðustu mánuði, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.
Von um tímabundið ástand á vinnumarkaði sífellt veikari
Í hagspánni kemur fram að efla þurfi íslenskan vinnumarkaði til þess að hagkerfið nái aftur fyrri styrk, enda sé ljóst að mikið og langvarandi atvinnuleysi hafi skýr áhrif á eftirspurn í hagkerfinu. Einkaneysla hefur dregist saman um 8,3 prósent milli ára og svo mikill samdráttur í einkaneyslu hefur ekki mælst síðan árið 2009, í kjölfar efnahagshrunsins.
Fjallað er um ýmis tímabundin úrræði sem stjórnvöld hafa kynnt til sögunnar til þess að draga úr afleiðingum kreppunnar. Í hagspánni segir að stjórnvöld hafi aðlagað úrræðin eftir þörfum: „Það hefur gengið vel fram að þessu, en fyrri væntingar um að hér sé einungis um tímabundið vandamál að ræða verða sífellt veikari,“ segir í hagspánni.
Hagfræðideildin spáir því að atvinnuleysi aukist áfram og verði að meðaltali 8,4 prósent á næsta ári.
„Við reiknum með verulegu atvinnuleysi í upphafi árs 2021 en gerum ráð fyrir að síðan dragi úr því á nýjan leik eftir því sem líður á árið og að áfram muni draga úr atvinnuleysi eftir því sem umsvif aukast í ferðaþjónustu. Árið 2022 gerum við ráð fyrir 5,8% atvinnuleysi og 4,8% á árinu 2023.“
Missa að meðaltali 326.000 krónur af ráðstöfunartekjum á mánuði
Í hagspánni er fjallað um það fjárhagslega högg sem fólk verður fyrir þegar það missir vinnuna. Gengið er út frá því að meðallaun á Íslandi fyrir fullt starf séu rúmar 800.000 krónur. Við það að fara á venjulegar atvinnuleysisbætur dragast ráðstöfunartekjur fólks á meðallaunum saman um 326.000 krónur á mánuði. Við það að fara á tekjutengdar atvinnuleysisbætur, sem nú gilda í sex mánuði frá atvinnumissi, verður fólk á meðallaunum af 221.000 krónum í ráðstöfunartekjur á mánuði.
Stjórnendur sem missa vinnuna horfa að meðaltali fram á 630.000 króna samdrátt í ráðstöfunartekjum á mánuði og iðnaðarmenn um það bil 380.000 króna samdrátt.
Bil milli launaþróunar á almennum markaði og opinberum brúað að mestu
Síðustu mánuði hafa laun á opinbera markaðnum verið óvenjumikið lægri en laun á almennum markaði, enda voru kjarasamningar innan BSRB gerðir tæpu ári eftir að lífskjarasamningurinn var gerður á almenna markaðnum.
„Laun á almenna og opinbera markaðnum þróast yfirleitt með svipuðum hætti yfir lengri tíma. Það bil sem hefur verið á milli þessara markaða síðasta árið hefur verið óvenjulega stórt og varað óvenju lengi, en með samningum opinberra starfsmanna í vor hefur það verið brúað að mestu leyti,“ segir í hagspánni.