Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjúkrahús í Tékklandi að nálgast þolmörk

20.10.2020 - 22:06
Heilbrigðisstarfsfólk á COVID-deild á ICU sjúkrahúsinu í Prag í Tékklandi. - Mynd: EPA-EFE / EPA
Kórónuveirufaraldurinn er enn skæður í Evrópu og staðan er hvað verst í Tékklandi þar sem spítalar eru að verða yfirfullir. Mörg Evrópuríki heyja harða baráttu við aðra eða þriðju bylgju faraldursins. Smitin í álfunni eru komin yfir fimm milljónir og dauðsföllin eru rúmlega 202.000.

Sé litið til fjölda smita miðað við mannfjölda eru þau flest í Tékklandi. Síðustu tvær vikur hafa smit verið 905 á hverja hundrað þúsund íbúa. Yfir sex þúsund heilbrigðisstarfsmenn í landinu eru með virkt smit.

„Aðstæður breytast ört og fara versnandi hvað snertir fjölda innlagna á sjúkrahús, einkum á gjörgæslu. Ég býst við að ástandið nálgist þolmörk hjá sjúkrahúsum um allt Tékkland,“ segir Tomas Gottvald, forstjóri sjúkrahúss í Pardubice-héraði.

Spítalar eru að fyllast og hjá tékkneska fyrirtækinu Linet, sem framleiðir sjúkrarúm, er mikið að gera. Þangað barst pöntun frá ríkinu um að framleiða strax fimm hundruð rúm, hið minnsta. Þeim verður komið fyrir á bráðabirgðaspítala í sýningarhöll í Prag. 

Tomas Kolar, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að yfirleitt taki viðskiptaferli eitt til eitt og hálft ár en að í þessu tilviki sé það sólarhringur eða fáeinir dagar. „Við skrifum líklega undir samninginn í dag og förum að afhenda sjúkrarúm á miðvikudag, svo að frá símtali forsætisráðherrans að fyrstu afhendingu líður aðeins vika. Þetta eru auðvitað mjög sérstakar aðstæður hjá okkur,“ segir hann.