Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Segir ekki jafnræði með íbúum landsins

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Kona á Akureyri sem þarf að sækja læknisþjónustu í Reykjavík mun oftar en Sjúkratryggingar greiða fyrir, segir ekki jafnræði með íbúum landsins. Hún vill fá að velja sér sjálf lækni eins og í allri annarri þjónustu.

Fjöldi fólks vítt og breitt um landið sækir heilbrigðisþjónustu sem það á ekki kost á í heimabyggð til höfuðborgarinnar og Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða ferðakostnað vegna þessa. Fólk á rétt á að fá tvær lengri ferðir endurgreiddar á ári. Sé það sé alvarlega veikt á það rétt á fleiri ferðum.

Fær tvær ferðir greiddar af fimm

Gerður Jónsdóttir býr á Akureyri. Hún fór í axlaraðgerð í Reykjavík í sumar og segir langt frá því að hún fái allan kostnað greiddan. Eftir aðgerðina þarf að koma fjórum sinnum í eftirlit, hún fær hins vegar bara tvær ferðir greiddar svo þrjár ferðir þarf hún að greiða úr eigin vasa ef hún vill nýta sér eftirlitið. Hún segist vita um marga sem fari ekki í eftirlitið vegna þessa.

Meira sem telur heldur en ferðakostnaður

Sjúkratryggingar greiða ekki kostnað vegna fjarveru frá vinnu eða gistingar en greiðsluþáttaka er í gistingu á sjúkrahótelum. „Það er alltaf svoleiðis hugsað að fólk á landsbyggðinni, þeir eiga einhvern aðila í Reykjavík. Ættingja sem þeir gista hjá, sá kostnaður er aldrei metinn inn í þetta. Þannig að fyrir fólk margt sem þarf að dvelja á hóteli þá leggst það ofan á svo þetta er eitt af því sem þarf að jafna.“ segir Gerður.

Vill fá að velja sér lækni

Hún setur það ekki fyrir sig að sækja þjónustu til Reykjavíkur og segist skilja ef læknar vilji starfa þar. Það sé hins vegar ekki jafnræði með íbúum landsins, það sé mismunun fólgin í að fá ekki að velja sér lækni sjálfur og tekur augnlækna sem dæmi en þeir eru fáir á Akureyri; „og ef við getum ekki nýtt okkur þá þjónustu eða viljum einhverja aðra þá þurfum við að borga það að fullu, það er ekkert greitt af því þessir læknar eru hér,“. Hún vilji geta valið sér lækni sjálf, sé hann í Reykjavík eigi heilbrigðiskerfið að greiða þann kostnað.