Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Júlíus Geirmundsson á leið til hafnar – sýnataka í dag

20.10.2020 - 12:32
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Skuttogarinn Júlíus Geirmundsson kemur í land á Ísafirði upp úr hádegi. Meiri hlutinn af 25 skipverjum er smitaður af COVID-19 og verða tekin sýni úr áhöfninni í dag.

Meiri hluti áhafnarinnar greindist með kórónuveirusmit í sýnatöku þegar Júlíus Geirmundsson kom til hafnar að taka olíu á sunnudag. Þá hafði skipið þegar verið á sjó í um þrjár vikur og margir skipverjar farnir að sýna einkenni. Skipið er nú á leið til hafnar. 

Gylfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir að enginn um borð sé alvarlega veikur. 

„Það eru 25 um borð og flestir þeirra eru smitaðir. Sýnataka fer fram aftur í dag til þess að skoða stöðuna bæði á því hversu margir eru sýktir en líka hvort einhverjir séu kannski komnir með mótefni og þar með gætu orðið lausir fyrr en síðar.“

Þurfa leyfi frá umdæmislækni sóttvarna til að fara frá borði

Niðurstöður fást úr sýnunum á morgun. Mennirnir mega ekki fara frá borði fyrr en niðurstöður berast og búið er að finna út úr því hvert þeir fara svo.

„Þeir mega ekki fara frá borði fyrr en umdæmislæknir sóttvarna hefur gefið þeim leyfi til þess. Ég veit ekki alveg hvenær það verður og það er ekki endilega víst að það verði sömu svör fyrir alla skipverja,“ segir Gylfi. 

Nokkrir kostir í stöðunni

Hann segir að skipverjar séu víðs vegar að af landinu. Fundið verði út úr því hvert þeir fara, í samráði við þá sjálfa, útgerðina og sóttvarnalækni. 

„Það eru nokkrir kostir í stöðunni. Að þeir fari heim til sín, ef þeir hafa aðstöðu til þess, að þeir fari í farsóttahús annað hvort á Vestfjörðum eða við Rauðarárstíg. Að þeir verði áfram um borð, eða einhverjir aðrir kostir sem gætu komið upp.“

Gylfi segir að farsóttarhús sé ekki tilbúið á Vestfjörðum sem stendur en gæti verið það eftir sólarhring.