Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Grásleppusjómenn sýknaðir af ákæru um brottkast

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur sýknað útgerðir og skipstjóra tveggja grásleppubáta af ákæru um brottkast. Þeim var gefið að sök að hafa losað úr grásleppunetum, og hent aftur í sjóinn, samtals ellefu fiskum.

Landhelgisgæslan sendi Lögreglustjóranum á Norðurlandi vestra kærunar, þar sem fram kemur að flugvél Gæslunnar hafi komið að bátunum við grásleppuveiðar 15. apríl 2019. Fylgst hafi verið með þeim í gegnum eftirlitsmyndavél flugvélarinnar og þá komið í ljós að fiski var kastað í sjóinn.

Í tveimur aðskildum dómum Héraðsdóms Norðurlands vestra kemur fram að annarsvegar sé um að ræða þrjá fiska, af ótilgreindum tegundum nytjafiska, og hinsvegar átta fiska.

Fram kemur að myndbandsupptökur Landhelgisgæslunnar, sem kæran er m.a. byggð á, séu óskýrar enda teknar úr flugvél í talsverðri hæð. Á þeim sé ógerlegt sé að sjá af hvaða tegund fiskurinn er. Því sé ósannað að um sé að ræða nytjafisk sem skylt er að koma með í land. Eru ákærðu því sýknaðir af kröfum ákæruvaldisins.