Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Engin gosvirkni og skjálftavirknin að færast til

20.10.2020 - 16:33
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofunnar, segir að eftirskjálftavirknin hafi verið að færast vestar eftir stóra skjálftann sem reið yfir á Reykjanesi í dag. Engin merki eru um gosóróa á svæðinu.

Stóri skjálftinn hefur verið metinn 5,6 að stærð, segir Kristín. „Hann varð á Núpshlíðarhálsi, um fimm kílómetra vestur af Seltúni sem er jarðhitasvæði við Kleifarvatn.“

„Það má alveg búast við því að í kjölfar svona skjálfta að þá mælist eftirskjálftar. Jarðskorpan er hreinlega að jafna sig eftir þessi átök. Það hafa mælst um sjö skjálftar sem hafa fundist mjög vel á svæðinu og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu líka. Stærstu eftirskjálftarnir hafa náð 4,2 að stærð.“

Spurð hvort einhver gosvirkni sé í tengslum við þessa skjálftavirkni segir Kristín að svo sé ekki. „Þetta lýsir sér bara sem mjög hefðbundin skjálftahrina þar sem kemur svona aðalskjálfti og svo fylgir honum eftirskjálftavirkni.“

Hún segir að það megi búast við því að það taki tíma fyrir þetta kerfi að jafna sig eftir stóra skjálftann. „Það sem við höfum líka séð er að virknin hefur verið að færast ennþá vestar. Nýjasta virknin er svona 9 kílómetrum vestur af Kleifarvatni.“

„Við höldum áfram að fylgjast með. Það er greinilega óstöðugleiki á svæðinu og mikið um litla skjálfta. Og endrum og eins þá koma svona skjálftar sem við höfum verið að finna hér á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Kristín.

Stærsti skjálfti frá 2003

Í frétt á vef Veðurstofunnar segir að skjálftinn í dag sé sá stærsti frá árinu 2003. Mikil skjálftavirkni hefur verið á Reykjanesskaganum allt þetta ár og í sumar mældust skjálftar um og yfir 5 að stærð við Fagradal. Það er vestan við upptök skjálftans í dag.

„Saga jarðskjálftavirkninnar á Reykjanesskaganum sýnir að snarpir skjálftar hafa orðið í tengslum við meiriháttar jarðskjálftahrinur. Því er ekki hægt að útiloka að stærri jarðskjálftar fylgi hrinunni nú og talið er að þeir stærstu gætu orðið u.þ.b. 5.5 - 6 að stærð. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni á höfuðborgarsvæðinu,“ segir á vef Veðurstofunnar.