Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Duterte lýsir sig ábyrgan fyrir drápum þúsunda

20.10.2020 - 06:39
epa06228081 Philippine President Rodrigo Duterte gestures during his speech in Pasay City, south of Manila, Philippines, 26 September 2017. Duterte attended the Department of Justice's 120th anniversary celebration.  EPA-EFE/MARK R. CRISTINO
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja. Mynd: EPA-EFE - EPA
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, lýsti því yfir í gærkvöld að hann færi fúslega í fangelsi vegna þeirra drápa sem framin hafa verið í stríðinu gegn eiturlyfjum. Í sjónvarpsviðtali í gærkvöld sagðist forsetinn ekki hafa neitt á móti því að hann yrði gerður ábyrgur fyrir öllum þeim þúsundum manndrápa sem framin hafa verið í stríði yfirvalda á Filippseyjum gegn eiturlyfjum, sem hann lýsti sjálfur yfir þegar hann tók við völdum sumarið 2016.

Sagðist hann reiðubúinn að svara til saka fyrir þau, jafnvel þótt það kostaði hann fangelsisdóm. Hann myndi aldrei viðurkenna að hafa framið glæpi gegn mannkyni, „en þið megið gera mig ábyrgan fyrir hverju sem er öðru, hvaða dauðsföllum sem orðið hafa í stríðinu gegn eiturlyfjum,“ sagði forsetinn.

Minnst 6.000 drepin 

Um 6.000 manns hafa verið drepin án dóms og laga í þessu blóðuga stríði samkvæmt opinberum tölum lögregluyfirvalda. Mannréttindasamtök, bæði filippeysk og alþjóðleg, þar á meðal Amnesty International, telja víst að mun fleiri hafi fallið. „Ef þú verður drepinn, þá er það vegna þess að eiturlyf gera mig fjúkandi reiðan,“ sagði Duterte. „Dragið mig fyrir rétt til að dæma mig í fangelsi. Fínt, ég hef ekkert á móti því. Ef ég get þjónað þjóð minni með því að fara í fangelsi, þá geri ég það fúslega.“

Tvær kærur til skoðunar hjá Alþjóða glæpadómstólnum

Saksóknari við Alþjóða glæpadómstóllinn í Haag er með minnst tvær kærur á hendur filippeyskum stjórnvöldum til skoðunar, þar sem kæruefnið er fjöldamorð og glæpir gegn mannkyni. Verið er að kanna hvort nægileg sönnungargögn liggi fyrir til að réttlæta formlega og ítarlega rannsókn dómstólsins á málinu.

Þá samþykkti Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðana nýverið ályktun sem Ísland lagði fram, um að gera skuli óháða, alþjóðlega úttekt á stöðu mannréttindamála á Filippseyjum. Sú ályktun er einnig sprottin af áhyggjum af skefjalausu ofbeldinu sem yfirvöld á Filippseyjum beita borgara sína í þessu svokallaða stríði sínu gegn eiturlyfjum.