Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Smit um borð í Júlíusi Geirmundssyni

19.10.2020 - 21:23
Ísafjörður Höfnin Bryggja BátÍsafjörður Höfnin Bryggja Bátur skip Júlíus Geirmundsson ÍS270
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Meirihluti áhafnarinnar á frystiskipinu Júlíusi Geirmundssyni, sem Hraðfrystihúsið Gunnvör hf. á Ísafirði gerir út, hefur greinst með COVID-19.

Þetta varð ljóst eftir að sýni voru tekin úr allri áhöfninni þegar skipið kom til hafnar á Ísafirði í gærkvöld til að taka olíu. Veiðiferðin hafði þá staðið í þrjár vikur og nokkrir í áhöfninni verið með flensueinkenni. Þegar skipið kom til hafnar fóru heilbrigðisstarfsmenn um borð til sýnatöku en enginn úr áhöfninni fór í land.

Að sýnatöku lokinni lagði skipið úr höfn en niðurstöður sýnatökunnar komu ekki fyrr en nú undir kvöld. Þegar þær lágu fyrir var veiðum þegar hætt og skipinu snúið til hafnar og er það væntanlegt til Ísafjarðar á morgun. Enginn um borð virðist vera alvarlega veikur. Fram kemur í tilkynningu frá útgerðinni að næstu skref verði tekin í fullu samráði við umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum.

 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV