Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skólar slaki á kröfum: „Getum ekki látið sem ekkert sé“

19.10.2020 - 14:02
Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / Ljósmynd/Almannavarnir
Skólar og menntayfirvöld ættu í auknum mæli að huga að virkni, vellíðan og andlegri heilsu nemenda og slaka á námskröfum á meðan hertar aðgerðir vegna kórónuveirufaraldursins eru í gildi.

Þetta sagði Hrefna Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Hrefna sagði að margir hefðu áhyggjur af því álagi sem nú er á heimilum vegna aðgerðanna. Margir nemendur þurfa að stunda fjarnám, og borið hefur á aðstöðumun barna til náms þegar kemur að tækjakosti og annarri tækni sem nauðsynleg er í fjarnámi.

Hrefna sagði að það væri þrekvirki að takast að halda skólastarfi gangandi með þeim hætti sem gert hefur verið en í fjarnámi sé vert að benda á að nám er meira en það sem fram fer í bókum. 

„Því viljum við hvetja skóla og menntayfirvöld til að leggja áherslu á félagslega virkni, lífsleikni og andlega heilsu. Og mögulega slaka aðeins á námskröfum á meðan við komumst í gegnum mesta storminn. Við getum ekki látið eins og ekkert sé og ætlast til að komast í gegnum námsefnið óskert. Við þurfum að forgangsraða og að okkar mati er geðheilsa eitthvað sem við ættum að setja í forgang,“ sagði Hrefna.

Nauðsynlegt sé að hjálpa börnum og ungmennum að halda virkni og reyna að finna eitthvað til að hlakka til. Það eigi ekki síst við í framhaldsskólum þar sem félagslíf hefur verið af skornum skammti.