Mynd Gunnars fær óvænt hlutverk í Netflix þáttum

Mynd: Bria Murphy / Instagram

Mynd Gunnars fær óvænt hlutverk í Netflix þáttum

19.10.2020 - 09:09

Höfundar

Áhugaljósmyndarinn Gunnar Salvarsson fékk nokkuð óvænt símtal frá Netflix á dögunum. Til stendur að hafa málverk eftir bandarísku listakonuna Briu Murphy til sýnis í nýrri þáttaröð og það kemur í ljós að myndin er máluð eftir ljósmynd Gunnars sem tekin var í Malaví árið 2007.

Gunnar Salvarsson fjölmiðlamaður og kennari hefur starfað í Utanríkisráðuneytinu í fimmtán ár þar sem hann hefur umsjón með útgáfu- og kynningarmálum um þróunarsamvinnu. Í starfi sínu ferðast hann um heiminn og hefur myndavélina alltaf meðferðis. Í einni slíkri heimsókn árið 2007 fór hann í þorp í Malaví þar sem hann myndaði fólkið sem hann kynntist. Ein myndin er af lítilli stúlku. „Ég gerði lítið með myndina, hún var ekki á sýningunni minni í Fótógrafí á Skólavörðustíg en ég setti hana á Flickr,“ segir Gunnar.

Á Flickr-síðu Gunnars rambaði hins vegar bandaríska listakonan Bria Murphy sem er elsta dóttir stórleikarans Eddie Murphy. Hún rakst á myndina og varð svo innblásin að hún málaði risastórt málverk eftir henni sem nefnist Origin V. „Þetta er fimmta myndin í myndaseríu hennar sem á að upphefja afríska menningu. Þetta er flennistór mynd,“ segir Gunnar.

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

“Origin V” of the Rappelle-toi series #ANTHRO #June10th2018 #UsArt @_us_art_ Shot by @justwilliet

A post shared by Bria (@bria_murphy) on

Hann hafði ekki hugmynd um að hún hygðist mála eftir ljósmynd sinni en segir ljóst að hún fari ekkert í grafgötur með upprunann enda birtir hún mynd af sér á Instagram-síðu sinni þar sem ljósmynd Gunnars sést glögglega á tölvuskjánum.

Mynd með færslu
 Mynd: Gunnar Salvarsson - Aðsend
Ljósmynd Gunnars af stúlkunni.

Hann hefði hins vegar líklega aldrei vitað af málverki Briu nema Netflix hefði haft samband. Leikmyndahönnuðir nýrra leikinna gaman/dramasjónvarpsþátta fengu nefnilega þá hugmynd að nota mynd Briu í settinu en Bria benti þeim á að líklega væri réttast að fá leyfi hjá manninum sem tók ljósmyndina sem myndin var máluð eftir. Þá var auðvitað hringt í Gunnar. „Ég hikaði ekki við það, þetta er bara gaman,“ segir Gunnar. Þetta er alls ekki í fyrsta skipti sem listafólk notar myndir Gunnars á þennan hátt og segir hann að flestir biðji um leyfi og það sé auðsótt. „Ég hef ávallt tekið listafólki vel sem hefur í gegnum tíðina málað eða teiknað myndir eftir ljósmyndum mínum.“

Þátturinn heitir Tea time og verður frumsýndur árið 2021 á streymisveitunni.