Gunnar Salvarsson fjölmiðlamaður og kennari hefur starfað í Utanríkisráðuneytinu í fimmtán ár þar sem hann hefur umsjón með útgáfu- og kynningarmálum um þróunarsamvinnu. Í starfi sínu ferðast hann um heiminn og hefur myndavélina alltaf meðferðis. Í einni slíkri heimsókn árið 2007 fór hann í þorp í Malaví þar sem hann myndaði fólkið sem hann kynntist. Ein myndin er af lítilli stúlku. „Ég gerði lítið með myndina, hún var ekki á sýningunni minni í Fótógrafí á Skólavörðustíg en ég setti hana á Flickr,“ segir Gunnar.
Á Flickr-síðu Gunnars rambaði hins vegar bandaríska listakonan Bria Murphy sem er elsta dóttir stórleikarans Eddie Murphy. Hún rakst á myndina og varð svo innblásin að hún málaði risastórt málverk eftir henni sem nefnist Origin V. „Þetta er fimmta myndin í myndaseríu hennar sem á að upphefja afríska menningu. Þetta er flennistór mynd,“ segir Gunnar.