Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Matvælastofnun nýtt auknar heimildir til dýraverndar

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmur Þór Guðmun - RÚV
Matvælastofnun hefur frá árinu 2016 beitt dagsektum í 69 málum og vörslusviptingu í 30 málum. Stjórnvaldssektum hefur verið beitt 13 sinnum og 11 málum hefur verið vísað til lögreglu. Einu sinni hefur starfsemi verið stöðvuð vegna brota á velferð dýra.

Árið 2016 var sett í dýravelferðarlög heimild til Matvælastofnunar um að henni sé heimilt að beita auknum þvingunum og refsingum á hendur þeim sem brjóta lög um velferð og umönnun dýra. 

Dagsektir, framkvæmdir á kostnað eiganda, vörslusviptingar dýra og stöðvun starfsemi eru úrræði til að þvinga fram úrbætur þegar umráðamenn dýra bregðast ekki við tilmælum stofnunarinnar innan gefins frests. Þá getur Matvælastofnun beitt stjórnvaldssektum eða kært mál til lögreglu vegna refsiverðra brota á dýrum.  

Misjafnt er hvernig málin dreifast um landið. Rúmlega helmingur mála þar sem ákvörðun var tekin um beitingu þvingana eða stjórnvaldssekta eru á suðvesturhorninu (30%) og Suðurlandi (24%). Vesturland og Norðurland eystra hafa um 15% mála hvert um sig en Norðurland vestra 9%. Fæst mál hafa komið upp á Austurlandi eða um 6%.

Matvælastofnun hefur frá 2016 til 2019 boðað fyrirhugaðar dagsektir í 69 málum er varða brot á dýravelferð, þar af hafa 18 farið í innheimtu. Þrír af hverjum fjórum (74%) bæta úr innan frests þannig að dagsektir eru ekki innheimtar. Samkvæmt Matvælastofnun sýnir það að dagsektir séu skilvirkt úrræði til að ná fram úrbótum í dýravelferð. Í einu tilfelli voru úrbætur gerðar á kostnað umráðamanns.

Flestar kærur til lögreglu og vörslusviptingar varða gæludýr, en einnig hafa umráðamenn hrossa, nautgripa, sauðfjár og hænsna verið sviptir dýrum sínum. Dagsektum hefur oftast verið beitt þegar brotið er á aðbúnaði og meðferð nautgripa og hrossa, en einnig sauðfjár og svína.

Nánar má lesa um þetta á vef Matvælastofnunar.