Gleymdar gyðjur súrrealismans

Mynd: . / Wikimedia Commons

Gleymdar gyðjur súrrealismans

19.10.2020 - 09:11

Höfundar

Leonor Fini, Nusch Eluard, Dora Maar og fleiri konur innan hreyfingar súrrealistanna hafa með tímanum fallið í gleymskunnar dá. Einhverjar þeirra eru þekktastar sem viðfangsefni, módel og músur listamanna, en í seinni tíð hafa þær fengið þann sess sem þær eiga skilið innan listasögunnar.

Í fyrstu stefnuyfirlýsingu súrrealistanna frá árinu 1924, þar sem André Breton nefnir hreyfinguna í fyrsta sinn, segir hann súrrealisma í eðli sínu vera ósjálfráða undirvitundina sem brjótist upp á yfirborð veruleikans, og umbreytist þar í mótaða hugsun, með hjálp listarinnar. Listamaðurinn er þannig milliliður undirmeðvitundar og veruleika, en súrrealíski listamaðurinn, þarf að vera frjáls, því einungis í frelsi undan öllum kerfum samfélagsins getur hann miðlað sannleika undirdjúpa hugans. 

En líkt og annar súrrealisti, Meret Oppenheimer, benti á, þá er frelsið aldrei gefins, heldur þarf að berjast fyrir því. Og það var auðvitað aðeins flóknara fyrir konur en karla, líka í frjálslyndum hópi Bretons sem talaði fyrir frelsi eins og hann væri sjálfur frelsarinn. Þrátt fyrir að segjast ekki hlýða neinum skilgreiningum veruleikans sem við lifum við, þá voru skýrar línur á milli kynjanna í hans huga. Sumir skýrendur sögunnar vilja reyndar meina að Breton hafi verið dauðhræddur við konur og þann ægilega kraft sem þær gátu haft yfir karlmönnum í krafti kynþokkans.

<em>Object</em> (or<em> Luncheon in Fur</em>), by Meret Oppenheim.
 Mynd: wikicommons
Meret Oppenheimer, 1936, Museum of Modern Art, New York.

Ef flett er í gegnum myndir frá tíma súrrealistanna í Cadaqués, má gjarnan sjá Dalí og Gölu í samneyti við fyrri eiginmann Gölu, skáldið og annan af upphafsmönnum hreyfingarinnar, Paul Eluard. Ein svarthvít ljósmyndin sýnir þau sitja í makindum sínum í tágastólum á verönd við spegilslétt hafið og í fangi Eluards situr ung kona, fíngerð, dökk yfirlitum og forkunnafögur. Konan hét Nusch Benz, en átti nokkrum árum síðar eftir að fá eftirnafnið sem Gala bar áður, Eluard.

Nusch hafði á þessum tíma nýlega kynnst hópnum eftir að hafa flutt frá Sviss til Parísar til að starfa sem leikkona. Auk þess að verða ástkona Eluards, og síðar eiginkona, varð Nusch með tímanum vinsælt módel og í raun innblástur fjölda listamanna Parísar þess tíma. Man Ray, Lee Miller og Dora Maar áttu öll þátt í að gera Nusch ódauðlega á þessum tíma með ljósmyndum sínum og Picasso á málverki í kúbískum stíl nokkrum árum síðar,  en hann var einn af hennar fjölmörgu elskendum.

Mynd með færslu
 Mynd: wikimedia
Nusch Éluard - Collage, 1937 - Collection of Timothy Baum, New York

Nusch, líkt og svo margar konur sem voru hluti af hópi súrrealistanna, birtist okkur í sögunni sem viðfang listamanna, en hún var auðvitað allt annað og meira en viðfang. Auk þess að vera leikkona teiknaði Nusch, og gerði táknrænar klippimyndir í draumkenndum stíl. Þessar myndir voru framan af eignaðar eiginmanni hennar en með nýrri söguskoðun hafa þær verið eignaðar henni á nýjan leik. 

Fjallað var um gleymdar listakonur innan hreyfingar súrrealistanna og sýninguna Fantastic Women, sem sýnd er um þessar mundir í Louisiana safninu, í Víðsjá og hægt er að hlusta á umfjöllunina í heild sinni í spilaranum hér að ofan.