Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Fargjaldatekjur lækkuðu um 800 milljónir

19.10.2020 - 12:37
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Framkvæmdastjóri Strætó gerir ráð fyrir að niðurstaða fáist í vikunni um hvort og hvernig verður hægt að brúa það tekjutap sem fyrirtækið hefur orðið fyrir vegna kórónuveirufaraldursins. Fargjaldatekjur hafa dregist saman um 800 milljónir króna.

Stjórnendur og eigendur Strætó hafa fundað um fjárhagsáætlun næsta árs, en stjórnarformaður fyrirtækisins hefur sagt að algjört tekjufall hafi orðið vegna COVID-19. Jóhannes Svavar Rúnarsson framkvæmdastjóri Strætó segir niðurstöðu ekki liggja fyrir.

„Það er ennþá verið að funda um málið. Þetta er reyndar hefðbundinn tími sem fjárhagsáætlanir byggðasamlaga og sveitarfélaga er í gangi en verkefnið er kannski aðeins stærra þetta árið.“
Er komin stærð á þetta gat sem á að einhverju eða öllu leyti rekja til COVID?
„Já, í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2020 erum við að gera ráð fyrir að fargjaldatekjur minnki um allt að 800 milljónir þannig að rekstrartap Strætós geti verið einhvers staðar á bilinu 550 til 600 milljónir.“

Jóhannes segist eiga von á að botn fáist í málið í þessari viku. Hann segir að eigendur fyrirtækisins, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, eigi í viðræðum við ríkið um mögulega aðstoð. Jóhannes segir að í lengstu lög verði reynt að koma í veg fyrir að þjónusta skerðist.

„Það er verkefnið en auðvitað ef ekki finnast peningar þá þurfum við auðvitað að skoða það. Við eigum auðvitað alltaf einhvers konar plön B en vonandi þurfum við ekki að nota það þetta árið eða næsta ár.“