Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

40 greinst á tveimur dögum eftir komu frá Póllandi

19.10.2020 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á tveimur dögum á síðastliðinni viku greindust alls 40 smit í skimun á landamærunum, öll frá fólki sem var að koma frá Póllandi. Flest þeirra eru búsettir hér á landi.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir upplýsti á upplýsingafundi almannavarna í dag að 22 smit hefðu greinst á landamærunum í gær. Allt var það hjá fólki sem var að koma frá Póllandi. 20 þeirra eru með íslenska kennitölu. Enn er beðið eftir mótefnamælingu um það hvort smitin séu virk eða gömul.

Á miðvikudag greindust 18 smit á landamærunum, einmitt frá einstaklingum sem voru að koma frá Póllandi og eru búsettir hér. Þau smit reyndust öll virk. Þórólfur sagði á upplýsingafundi á fimmtudag að þetta undirstriki mikilvægi þess að hafa skimanir á landamærum.

Á miðvikudag og sunnudag hafa því greinst 40 smit frá einstaklingum sem koma frá Póllandi, en búast má við því að niðurstaða mótefnamælingar hjá þeim sem komu í gær liggi fyrir síðar í dag. Þórólfur sagði á fundinum í dag að hann vissi ekki hvort tengsl væru á milli hópanna tveggja.

Frá því að skimun hófst á landamærunum hafa yfirleitt greinst þar á bilinu eitt til átta smit á dag. Þar til nú höfðu aldrei greinst fleiri en níu smit á landamærunum.