Zlatan tryggði Milan sigur í borgarslagnum

epa08753336 AC Milan's Zlatan Ibrahimovic celebrates after scoring the 0-1 goal during the Italian Serie A soccer match  FC Inter vs AC Milan at Giuseppe Meazza stadium in Milan, Italy, 17 October 2020.  EPA-EFE/MATTEO BAZZI
 Mynd: EPA-EFE - ANSA

Zlatan tryggði Milan sigur í borgarslagnum

18.10.2020 - 09:50
Fjórir leikir fóru fram í efstu deild karla í fótbolta á Ítalíu í gær og urðu nokkuð óvænt úrslit þar í landi. AC Milan sigraði borgarslaginn um Mílanó þegar að þeir sigruðu Inter og í gærkvöldi tapaði Juventus dýrmætum stigum þegar þeim mistókst að sigra nýliða Crotone.

Í fyrsta leik gærdagsins mætti Napoli liði Atalanta og var boðið upp á mikinn markaleik. Fyrir leikinn var lið Atalanta með fullt hús stiga í deildinni og hafði liðið skorað 13 mörk í síðustu þremur leikjum sínum. Napoli byrjaði leikinn hinsvegar mun betur og á sjö mínútna kafla í fyrri hálfleik skoraði liðið þrjú mörk. Napoli bætti svo fjórða marki sínu við fyrir hálfleik. Eitt mark var skorað í seinni hálfleik og það voru gestirnir í Atalanta sem gerðu það. Lokatölur urðu því 4 - 1 fyrir Napoli.

Í stórleik gærdagsins mættust Mílanó liðin AC Milan og Inter. AC Milan hefur farið vel af stað og var liðið með full hús stiga fyrir leikinn. Strax á 13. mínútu fékk AC Milan vítaspyrnu og hinn 39 ára gamli Zlatan Ibrahimovic fór á punktinn. Vítið var hinsvegar varið en Zlatan fylgdi vel á eftir og skoraði. Þremur mínútum síðar var Zlatan aftur á ferðinni og kom gestunum í tveggja marka forystu áður en Romelu Lukaku minnkaði muninn fyrir Inter. Ekki var meira skorað í leiknum og AC Milan er því áfram með fullt hús stiga eftir að hafa sigrað baráttuna um Mílanó. 

Á Stadio Cumunale Luigi Ferraris tóku heimamenn í Sampdoria á móti Lazio. Heimamenn skoruðu tvö mörk í fyrri hálfeik og bættu svo því þriðja við þegar að stundarfjórðungur var eftir af leiknum og tryggðu sér því 3 - 0 sigur. 

Óvæntustu úrslitin í gær urðu þegar að Ítalíumeistarar mættu smáliði Crotone sem eru nýliðar í deildinni. Juventus stilltu upp sterku byrjunarliði þrátt fyrir að vera án Cristiano Ronaldo sem greindist nýlega með COVID-19. Hinn 42 ára gamli Gianluigi Buffon var einnig í markinu hjá Juventus og Frederico Chiesa var í fyrsta sinn í byrjunarliði Juventus. Það voru heimamenn sem byrjuðu betur og Simy kom þeim yfir úr vítaspyrnu á 12. mínútu leiksins. Alvaro Morata jafnaði skömmu síðar fyrir Juventus og staðan var 1 - 1 í hálfleik. Í seinni hálfleik varð Juventus fyrir áfalli þegar að Federico Chiesa fékk að líta rauða spjaldið. Einum færri tókst Morata þó að koma þeim yfir en markið var dæmt af. Lokatölur urðu því 1 - 1 og er þetta fyrsta stig Crotone í deildinni í ár.