Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Yfir 400.000 COVID-19 smit á einum sólarhring

18.10.2020 - 00:27
epa08747657 A Polish medical staff works at the COVID-19 testing lab in Warsaw, Poland, 15 October 2020. The number of confirmed coronavirus cases in Poland has increased since 14 October by 8,099 new infections, and reached 149,903, the Polish Ministry of Health said on 15 October morning.  EPA-EFE/Piotr Nowak POLAND OUT
Skimað fyrir COVID-19 í Varsjá í Póllandi Mynd: EPA-EFE - PAP
Í gær greindust í fyrsta sinn fleiri en 400.000 ný COVID-19 smit í heiminum á einum sólahring. Þriðjungur allra nýrra smita greindist í Evrópu, þar sem stjórnvöld í hverju ríkinu á fætur öðru grípa nú til æ harðari aðgerða til að hefta útbreiðslu farsóttarinnar. Síðustu vikur hafa að meðaltali greinst um 140.000 smit í álfunni á degi hverjum, fleiri en í Bandaríkjunum, Brasilíu og Indlandi samanlagt.

Helmingur smita í Evrópu í fimm ríkjum

Samkvæmt greiningu sem unnin var fyrir Reuters-fréttastofuna eru því um 34 af hverjum 100 tilfellum sem staðfest eru um þessar mundir í Evrópu. Um helmingur allra smita í álfunni greinast í fimm ríkjum þessa dagana; Bretlandi, Rússlandi, Hollandi, Spáni og svo í Frakklandi, þar sem meðalfjöldi sólarhringssmita er hæstur, eða rúmlega 19.400. Þar greindist hins vegar metfjöldi smita síðasta sólarhringinn, eða 32.427.

Strangt útgöngubann tók gildi í níu stærstu borgum Frakklands í kvöld, og mun gilda milli níu á kvöldin til sex á morgnana næstu þrjár vikur hið minnsta. Metfjöldi smita hefur einnig greinst í Þýskalandi, Póllandi, Bretlandi, Tékklandi og á Ítalíu á síðustu dögum. 

Metfjöldi smita í tíu af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna

Í Bandaríkjunum var tilkynnt um ríflega 69.000 tilfelli frá föstudegi til laugardag, samkvæmt gögnum Johns Hopkins háskólans, og hafa sólarhringssmit ekki verið fleiri þar í landi síðan í lok júlí. Metfjöldi greindist með veiruna í tíu ríkjum Bandaríkjanna þennan sólarhring; í Colorado, Idaho, Indiana, Minnesota, Norður-Dakóta, Norður-Karólínu, Nýju Mexíkó, Vestur-Virginíu, Wisconsin og Wyoming, samkvæmt Johns Hopkins.