Sögulegt mark í stórsigri Arsenal

Mynd með færslu
 Mynd: Arsenal

Sögulegt mark í stórsigri Arsenal

18.10.2020 - 15:48
Arsenal er á toppi ensku kvennadeildarinnar eftir 6 - 1 stórsigur á nágrönnum sínum í Tottenham. Leikurinn í dag fer í sögubækurnar þar sem Vivianne Miedema varð sú fyrsta til að skora 50 mörk í deildinni með sínu fyrsta marki í leik dagsins.

Miedema hefur verið frábær eftir að hún gekk til liðs við Arsenal frá Bayern Munchen árið 2017. Leikurinn í dag var hennar 50. og er hún því með mark í hverjum leik að meðaltali. Miedema hefur einnig verið iðin við kolann með hollenska landsliðinu þar sem hún er með 69 mörk í 89 leikjum. 

Arsenal þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki sínu í dag en Katie McCabe kom liðinu yfir á fjórðu mínútu. Þremur mínútum síðar skoraði svo Miedema þetta sögufræga mark. Caitlin Foord skoraði þriðja mark Arsenal á 15. mínútu og Miedema bætti tveimur mörkum við fyrir hálfleik og fullkomnaði þar með þrennu sína. Hún er því búin að skora 52 mörk í 50 leikjum fyrir Arsenal í deildinni. Caitlin Foord skoraði sjötta mark Arsenal áður en Lucia Leon minnkaði muninn fyrir Tottenham. 

Önnur úrslit í ensku kvennadeildinni í dag voru:
West Ham 2 - 4 Man Utd
Everton 2 - 2 Brighton
Bristol City 0 - 4 Birmingham
Reading 1 - 1 Man City