Skólabörn í sóttkví „Þetta er alveg drepleiðinlegt“

18.10.2020 - 19:11
Mynd: Guðmundur Bergkvist / rúv
Meira en tíundi hver unglingur í grunnskólum Reykjavíkur er í sóttkví. Eitt smit hjá nemanda getur haft víðtæk áhrif á skólastarf. Tveir vinir í Réttarholtsskóla segjast vera orðnir mjög þreyttir á einverunni sem faraldurinn veldur. Þeir eru orðnir þreyttir á að hanga heima og geta ekki hitt vinina, farið í skólann eða stundað íþróttir. Þeir vona að lífið fari að komast í samt horf.

Hátt í 500 nemendur á unglingastigi í Réttarholtsskóla og Austurbæjarskóla voru settir í úrvinnslusóttkví eða sóttkví um helgina. Bergþór Ingi Sverrisson og Arnar Þórarinsson eru í níunda bekk í Réttó.

„Mér finnst þetta orðið mjög þreytt sko. Mér finnst þetta ekki gaman. Þetta er alveg drepleiðinlegt,“ sagði Bergþór Ingi þegar fréttastofa náði tali af honum í dag.

Aftur í sóttkví eftir tveggja tíma frelsi

Í gær kláraðist úrvinnslusóttkví hjá Bergþóri og skólafélögum hans, en frelsið varði ekki lengi.

„Ég losnaði bara í tvo klukkutíma eða eitthvað og þá þurfti ég að fara beint aftur. Ég fór bara beint að hitta alla vini mína og svo bara hringdi pabbi og bara, þú verður að koma aftur heim í sóttkví. Þá var einhver annar krakki í tíunda bekk sem greindist. Og hvernig leið þér með það? Mér fannst það ekki, ég var mjög pirraður sko. Ég var svo glaður að geta farið bara út úr húsi. Og þá bara beint aftur inn,“ segir Bergþór.

Sakna þess að fara í skólann og á æfingar

Það er þó huggun harmi gegn að flestir félagar Bergþórs eru í sömu stöðu, meðal annars Arnar besti vinur hans. 

„Ég er sjálfur búinn að fara þrisvar held ég. Og það er frekar pirrandi að vera í sóttkví. Fyrst fór ég í tvær vikur og það var ekki gaman. Núna er ég búinn að fara tvisvar í úrvinnslusóttkví og einu sinni í langtímasóttkví,“ segir hann.

Arnar saknar þess að fara í skólann og á æfingar, en hann æfir bæði hand- og fótbolta. Hann segist vona að lífið fari að komast í samt horf.

„Já ég vona það. Bara allavega fyrir jól eða eitthvað svoleiðis.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi