Jensen fær stuðning til að sitja áfram

Frank Jensen
 Mynd: Wikimedia Commons - Ljósmynd
Frank Jensen, borgarstjóri í Kaupmannahöfn, segir að hann hafi stuðning samflokksfólks síns í Jafnaðarmannaflokknum til að sitja áfram í embætti, en  fjöldi kvenna  hefur stigið fram á síðustu dögum og sagt að hann hafi áreitt þær kynferðislega. Margir hafa krafist þess að Jensen láti af embætti og segi að auki af sér varaformennsku í flokknum.

Jensen ræddi við fréttamenn eftir fund borgarfulltrúa flokksins í ráðhúsinu í Kaupmannahöfn á níunda tímanum í kvöld og sagði þar að hann viðurkenndi þær sakir sem á hann væru bornar. Hann þyrfti að axla þá ábyrgð að biðja þær konur afsökunar sem hann hefði áreitt. „Ég vil vera hluti af lausninni,“ sagði Jensen.

Maria Gudme, sem situr í einu svæðisráða borgarinnar, sagði Jótlandspóstinum frá því á föstudag að Jensen hefði áreitt hana kynferðislega 2012. Síðdegis í dag greindi Jótlandspósturinn frá því að fleiri konur hefðu stigið fram og sagt að Jensen hefði brotið gegn þeim. Alls átta konur innan ungliðahreyfingar flokksins, DSU, hafa hafið ferli innan flokksins, sem var komið á til að takast við kynferðislega áreitni.

Ungliðahreyfingin lýsti vantrausti á Jensen í gær. Hann hefur verið borgarstjóri Kaupmannahafnar síðan 2010 og vakið athygli á alþjóðavettvangi, meðal annars fyrir að gefa saman samkynhneigð pör í krafti embættis síns. Jensen baðst afsökunar á Facebook í gær og sagðist leiður yfir þeirri stöðu sem upp væri komin, það væri hann sem bæri ábyrgð og hann bað flokksfélaga sína afsökunar. 

Jensen er varaformaður flokksins og Mette Frederiksen forsætisráðherra formaður. Margir flokksmenn hafa látið hafa eftir sér um helgina að hann gæti ekki gegnt því embætti áfram. Ungliðahreyfingin hefur verið áberandi í gagnrýni á Jensen. Cecilie Sværke Priess, formaður ungliðahreyfingarinnar, sagði í gær að varaformaður flokksins yrði að geta tekið á svona málum sem koma upp innan flokksins en það gæti núverandi varaformaður ekki því flest málin tengdust honum sjálfum. 

Ásakanir um kynferðislega áreitni hafa valdið miklum hræringum í dönskum stjórnmálum síðustu daga og vikur. Bæði Jensen og þingflokkur Radikale Venstre héldu krísufundi í dag til að bregðast við ásökunum um áreitni. Morten Ostergaard sagði af sér sem leiðtogi flokksins í síðustu viku eftir að hann gekkst við því að hafa áreitt samflokkskonu sína. Síðan hafa fleiri stigið fram og grunur um að flokksforystan hafi vitað af þessu máli og jafnvel fleirum en ekkert aðhafst. Í haust hafa margar ásakanir um kynferðislega áreitni komið fram, en önnur Metoo bylgja ríður nú yfir Danmörku og konur í mörgum kimum samfélagsins hafa sagt sína sögu. 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi