Framdi þrjú vopnuð rán á sólarhring

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og sérsveit ríkislögreglustjóra handtóku karlmann á sjöunda tímanum í kvöld, eftir að hann hafði ógnað starfsmanni Pylsuvagnsins í miðbænum með hnífi og þvingað hann til að afhenda sér fé. Þetta var þriðja vopnaða rán mannsins á rúmum sólarhring.

Í gær rændi maðurinn verslunina Euro Market við Hlemm og ógnaði þar einnig starfsmanni með hníf. Hann var handtekinn skömmu síðar á Austurvelli, en var látinn laus í morgun eftir yfirheyrslur.

Skömmu eftir hádegi í dag ógnaði hann starfsmanni verslunar Krambúðarinnar i Mávahlíð með eggvopni, fékk hann þannig til að afhenda sér fé og komst undan á hlaupum. Í kjölfarið hófst leit að manninum og hafði lögregla veður af því að hann væri að finna í húsi í miðbænum.

„Við fundum hann skammt frá Pylsuvagninum, hann var kominn þar í hús sem við höfðum staðsett hann í,“ segir Jóhann Karl Þórisson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. „Þetta er sami maðurinn og í hinum tveimur ránunum og var í öll skiptin með hníf og grímu fyrir andlitinu.“

Jóhann Karl segir að maðurinn hafi líklega haft nokkra tugi þúsunda upp úr krafsinu í ránunum þremur. Hann er nú í haldi lögreglu og verður yfirheyrður á morgun.

„Við tökum stöðuna á morgun hvort við förum fram á gæsluvarðhald yfir honum,“ segir Jóhann.  „Það er gott að við erum búnir að ná honum, þetta gengur ekki svona. Það er ekki hægt að láta svona mann ganga lausan.“

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi