Endurkoma Bale eyðilögð með einu af mörkum ársins

epa08755899 West Ham's Manuel Lanzini (C) celebrates after scoring the 3-3 equalizer during the English Premier League soccer match between Tottenham Hotspur and West Ham United in London, Britain, 18 October 2020.  EPA-EFE/Matt Dunham / POOL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - AP POOL

Endurkoma Bale eyðilögð með einu af mörkum ársins

18.10.2020 - 17:40
Dramað í ensku úrvalsdeildinni hélt áfram í dag þegar að Tottenham tók á móti West Ham í Lundúnum. Allt stefndi í öruggan sigur Tottenham en eftir að hafa verið þremur mörkum undir í hálfleik náði West Ham að snúa leiknum við og jafna undir lokin.

Augu flestra beindust að Gareth Bale þegar að leikmenn Tottenham og West Ham hituðu upp fyrir leik liðanna í dag. Þetta var í fyrsta skipti sem að Bale var á leikskýrslu í ensku úrvalsdeildinni frá því að hann var seldur frá Tottenham til Real Madrid sumarið 2013. 

Jose Mourinho, þjálfari Tottenham, fann þó ekkert pláss fyrir Bale í byrjunarliði sínu og velski leikmaðurinn settist því á bekkinn í upphafi leiks. Fjarvera Bale kom þó ekki niður á Tottenham. Son kom liðinu yfir eftir aðeins 45 sekúndur og á áttundu mínútu skoraði Harry Kane annað mark leiksins. Á 16. mínútu skoraði Harry Kane sitt annað mark og þriðja mark Tottenham og bjuggust þá flestir við sigur Tottenham væri tryggður. 

Eftir þriðja markið róaðist leikurinn talsvert og ekki var meira skorað í fyrri hálfleik. Á 72. mínútu var loksins komið að skiptingunni sem stuðningsfólk Tottenham hafði beðið eftir þegar að Steven Bergwijn fór útaf og inn á mætti Gareth Bale, í sínum fyrsta leik fyrir Tottenham síðan í maí 2013. Tíu mínútum eftir að Bale kom inn á náði Fabian Balbuena að minnka muninn fyrir West Ham færði þeim smá líflínu þó vonin væri ekki mikil. Davinson Sanchez varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark á 85. mínútu og spenna færðist í leikinn að nýju. 

Á annarri mínútu uppbótartíma fékk Gareth Bale tækifæri til að gerast hetja Tottenham þegar hann prjónaði sig í gegnum vörn West Ham en skot hans var ekki nógu gott og fór framhjá markinu. Á síðustu mínútu uppbótartíma fékk West Ham hornspyrnu, leikmenn Tottenham skölluðu frá og boltinn skoppaði fyrir utan teig. Þar mætti Manuel Lanzini og smellhitti boltann sem hafnaði netinu með viðkomu í bæði þverslánni og stönginni. Eitt af mörkum ársins. Reyndist þetta ein síðasta spyrna leiksins í þessum magnaða leik og lokatölur því 3 - 3.