COVID frændi sem illa útgáfan af Svampi Sveins

Mynd: Samsett / Youtube/RÚV

COVID frændi sem illa útgáfan af Svampi Sveins

18.10.2020 - 13:25

Höfundar

„Þetta er okkar framlag. Niður með þennan bölvaða COVID og smá hrista hausinn með,“ segir Óttarr Proppé sem var að senda frá sér lagið COVID frændi ásamt hljómsveitinni Dr. Spock.

Félagarnir í Dr. Spock hafa verið nokkuð skúffaðir síðustu mánuði yfir að geta ekki hist og æft eins og til stóð. Þeir brugðu á það ráð að taka upp lag saman þrátt fyrir að geta ekki verið á sama stað. Lagasmíðin hófst sem nokkurskonar fjar-leikur þeirra Óttarrs, Guðfinns Karlssonar, Arnars Þórs Gíslasonar, Franz Gunnarssonar og Þorbjörns Sigurðssonar. „Hann Finni, hinn söngvarinn, fór í stúdíó og urraði og söng og svo fór hann bara heim. Þá var hringt í Adda trommara sem hlustaði og þurfti að spila með því og koll af kolli þar til ég kom inn,“ útskýrir Óttarr Proppé í samtali við Lovísu Rut Kristjánsdóttur í Popplandi á Rás 2. „Þá voru þeir búnir að spila inn einhver ókjör af hávaða og látum og ég þurfti að syngja ofan á þetta. Heldurðu að það hafi ekki bara orðið lag úr!“ En þeir lögðu sig ekki fram við að gera samvinnuna auðvelda. „Við höfum alltaf verið í því að setja smá gildru fyrir hvern annan, reyna að gera þetta aðeins erfiðara fyrir trommarann til dæmis. Það verður að halda smá spennu í þessu,“ segir hann.

Lagið heitir COVID frændi og er nokkurskonar níðvísa um kórónuveiruna. „COVID er mjög áberandi í allri þessari vinnslu og pirringur og leiðindi yfir bölvaðri veirunni,“ segir Óttarr. „Fyrst varð til einhver teiknimyndahugmynd um COVID frænda sem einhverskonar vonda útgáfan af Svampi Sveins en svo er textinn ekki saminn heldur ósjálfráður söngur í stúdíóinu. Lagið endaði á að vera níðvísa um COVID frænda sem er ekki góður frændi.“

Í spilaranum hér fyrir ofan er hægt að hlýða á viðtalið og lagið COVID frændi.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Við ákváðum snemma að verða listbræður“