Árið sem heimsbyggðin hlustaði á „Gangnam Style“

Mynd með færslu
 Mynd: officialpsy - YouTube

Árið sem heimsbyggðin hlustaði á „Gangnam Style“

18.10.2020 - 16:30

Höfundar

Topp 40 listinn í Bretlandi í þessari viku árið 2012 er smekkfullur af smellum frá tónlistarfólki á borð við Adele, Rihönnu og Jason Mraz. Íslendingar eiga líka sinn fulltrúa á listanum og svo var þetta árið sem að heimsbyggðin tapaði sér yfir hinum suðurkóreska PSY.

Ellismellir eru þættir á dagskrá Rásar 2 á sunnudögum þar sem ferðast er aftur í tíman og vinsældalistar fyrri ára eru skoðaðir. Þennan sunnudaginn förum við aftur til ársins 2012 og skoðum breska topp 40 listann í þessari viku fyrir átta árum síðan. 

Það er raftónlistarmaðurinn Skrillex sem situr í fertugasta og síðasta sæti listans með lagið „Bangarang“ en í sætinu fyrir ofan hann er sumarsmellur ársins 2012, „Call Me Maybe“, með söngkonunni Carly Rae Jepsen. Í þrítugasta og þriðja sæti situr svo íslenska hljómsveitin Of Monsters and Men með lagið „Little Talks.“ Lagið sat þetta árið á vinsældalistum um allan heim og er hér á sinni tíundu viku af átján á topp 40 lista Bretanna. Lagið er að sjálfsögðu af plötunni My Head is an Animal en fyrr þetta sama ár, sumarið 2012, hafði hljómsveitin einmitt stoppað stuttlega á Íslandi og haldið risatónleika í Hljómskálagarðinum. 

Í tuttugasta og fjórða sæti má finna smell frá Jason Mraz sem hafði eftir vinsældir lagsins „I'm Yours“ ferðast um heiminn, aðstoðað við olíuhreinsun í Mexíkóflóa, barist gegn barnaþrælkun í Gana og lært um loftslagsbreytingar hjá Al Gore á Suðurskautinu. Í því nítjánda situr hin skoska Emeli Sandé og lagið „Read All About It“ sem var fyrst flutt á lokahátíð Ólympíuleikanna í London þetta sama ár. 

Þegar komið er inn á topp tíu sæti listans er varla þverfótað fyrir risa nöfnun, The Script, Flo Rida, Leona Lewis, Childish Gambino og Rihanna svo einhverjir séu nefndir. Í þriðja sæti situr svo hinn suðurkóreski PSY sem átti sennilega eitt umtalaðasta en jafnframt eitt vinsælasta lag ársins. Lagið sem um ræðir er auðvitað „Gangam Style“ en myndbandið við lagið var það fyrsta í sögunni til að fá milljarð spilana á YouTube og var á tímabili mest „lækaða“ myndband sögunnar á miðlinum. Það er auðvitað ekki nema von þar sem að danssporin við lagið voru eitthvað sem allir þurftu nauðsynlega að læra. 

Í öðru sæti er svo ekki minni methafi, söngkonan breska Adele. Hér er hún með nýútgefið lag á sinni annarri viku á lista, „Skyfall“. Lagið var auðvitað þemalag samnefndrar James Bond kvikmyndar sem átti eftir að koma út vikuna á eftir. Lagið sjálft hafði hins vegar komið út sjö mínútur yfir tólf, 0:07, þann 5. október 2012 en þann dag voru fimmtíu ár síðan að fyrsta James Bond myndin, Dr. No, kom út. „Skyfall“ sat á vinsældalistum víða um heim en komst reyndar aldrei á toppinn á þeim breska, það var hins vegar margverðlaunað og hlaut Óskarsverðlaunin fyrir besta lag árið eftir, 2013. 

Og þá er það fyrsta sætið. Lagið sem situr þar er nýtt á listanum en átti eftir að vera viðloðið hann í tuttugu og fimm vikur í viðbót. Þetta er lagið „Don't You Worry Child“ með hús-súpergrúppunni Swedish House Mafia, sem eru eins og nafnið gefur til kynna, sænskir tónlistarmenn. Lagið er síðasti „singúllinn“ sem kom út fyrir útgáfu annarrar plötu þeirra, Until Now, og naut gífurlegra vinsælda útum allan heim. 

Farið var yfir breska vinsældalistann árið 2012 í Ellismellum á Rás 2. Þátturinn er á dagskrá á sunnudögum klukkan 15 en sömuleiðis má hlusta á hann í spilara RÚV. Ef þig langar að heyra ákveðinn lista í þáttunum er hægt að senda tillögur í gegnum Facebooksíðu Rásar 2.