Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Tugþúsundir mótmæltu í Taílandi þrátt fyrir neyðarlög

17.10.2020 - 16:17
Erlent · Asía · Taíland
epa08753054 Pro-democracy protesters flash three-finger salute and shout slogans against the prime minister during an anti-government protest in Bangkok, Thailand, 17 October 2020. Pro-democracy protesters gather again in Bangkok in defiance of a government decree banning demonstrations as protesters call for the resignation of Thai Prime Minister Prayut Chan-o-cha and a rewrite of the new constitution and monarchy reform.  EPA-EFE/NARONG SANGNAK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugþúsundir mótmæltu í Bangkok og fleiri borgum Taílands í dag, fjórða daginn í röð. Óeirðalögregla beitti öflugum vatnsþrýstibyssum gegn mótmælendum í gærkvöld, en þar eru neyðarlög enn í gildi sem banna öll mótmæli.

Stjórnvöld í Taílandi lýstu yfir neyðarástandi á fimmtudaginn og settu á samkomubann, ekki vegna kórónuveirufaraldursins heldur mótmæla en þar hafa íbúar komið saman af og til síðustu mánuði til að kalla eftir afsögn ríkisstjórnarinnar, sem stjórnar í skjóli hersins. Þá er einnig krafist umbóta á stjórnarskrá landsins, valdi konungs verði settar meiri skorður og hann skipti sér ekki af stjórnmálum í landinu.

Ungt fólk er áberandi meðal mótmælenda en þeir hafa lokað fjölförnum gatnamótum í Bangkok og valdið miklum töfum á almenningssamgöngum. Mótmælin hafa að mestu verið friðsamleg og ekki komið til harðra átaka. Í Bangkok í gærkvöld beitti lögregla vatnsþrýstibyssum til að koma mótmælendum af götunni svo hægt væri að opna fyrir umferð að nýju.

Þetta hleypti illa blóði í mótmælendur sem fjölmenntu á götur Bangkok og fleiri borga í dag, og brutu þar með gegn samkomubanni fjórða daginn í röð. Maha Vajiralongkorn Taílandskonungur hefur til þessa ekki brugðist við kröfum mótmælenda. 

Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV