Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Þó að maður fái kvef - þá er maður ekki kvef“

17.10.2020 - 21:01
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr - RÚV
Héðinn Unnsteinsson formaður Geðhjálpar, telur að stjórnvöld þurfi að forgangsraða fjármunum betur til geðheilbrigðismála. Um tíu prósent af fjárveitingum stjórnvalda til heilbrigðiskerfisins renni beint til geðheilbrigðismála. Umfang málaflokksins sé hins vegar áætlaður um þrjátíu prósent.

„Það eru 280 milljarðar tæpir af þúsund á fjárlögum. Og af þessum 280 eru tíu prósent rúmlega sem renna til geðheilbrigðismála beint en umfang málaflokksins í heild sinni bæði á sjúkrahúsum, heilsugæslum og sérfræðiþjónustunni er um 30 prósent áætlað. Þannig að það er augljóst að það vantar á aðeins að forgangsraða fjármunum betur til geðheilbrigðismála,“ sagði Héðinn í Vikulokunum á Rás eitt.

Hann segir áhyggjuefni hversu mikil áhersla sé lögð á raskanir og einkenni. 

„Við erum alltaf að nálgast einkenni og afleiðingar, öðrum megin fyrir neðan fossinn og minna á orsakaþættina fyrir ofan fossinn. Það er nú svona helst og við setjum alla okkar athygli í raskanir og einkenni. Það er bara að greiningarbólgan er áhyggjuefni,“ sagði Héðinn.

Margt sé greint sem röskun og fólk fái ákveðinn stimpil til æviloka. 

„Það eru fleiri og fleiri sem hafa áhyggjur af þessu, hvernig við árið 1883 erum með sex greiningar, í dag er þetta orðið 600. Feimni er orðin félagsfælni, það er einhvern veginn allt orðið að einhverri röskun. Auðvitað erum við ekkert að segja að umpóla þessu aftur. Bara vekja athygli á því að þó að maður fái kvef þá er maður ekki kvef. Þegar kemur að geðröskunum þá er þetta svo algengt að menn einhvern veginn búi við þennan stimpil.“