Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Tekur undir áhyggjur um kostnað vegna hælisleitenda

17.10.2020 - 13:04
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins kveðst sammála áhyggjum Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um kostnað vegna hælisleitenda, ekki síst nú þegar ríkissjóður er rekinn með halla. Íslendingum beri þó að hjálpa fólki á flótta undan hörmulegum aðstæðum.

Nokkur umræða hefur skapast um færslur Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Facebook, þar sem hann birtir tölur um fjölda farþega með flugvélum sem koma hingað til lands.

Ásmundur nefnir tölur um fjölda hælisleitenda sem hann segir vera um borð, en gefur ekki upp hvaðan þessar upplýsingar koma. Hann birtir líka óstaðfestar tölur um kostnað vegna hvers hælisleitanda.

Á síðunni birtist síðan langur listi ummæla, þar sem margir lýsa vanþóknun á hælisleitendum, og segja Íslendinga eiga nóg með sjálfa sig. Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins gerir ekki athugasemdir við færslur Ásmundar.

„Ég held að í þeim orðum sé Ásmundur að benda á að á sama tíma og okkur gengur illa að afgreiða beiðnir um alþjóðlega vernd á Íslandi þá fellur til gríðarlega mikill kostnaður og það er slæmt, ekki síst þegar við erum að reka ríkissjóð með 260 milljarða halla. Svo ég er sammála því hjá honum,“ segir Bjarni.

Eigum við þá að taka á móti færri hælisleitendum og senda þá aftur til baka vegna þess að staða ríkissjóðs er ekki nægilega góð?

„Þegar um er að ræða hælisleitendur sem munu augljóslega ekki fá jákvæða niðurstöðu í sín mál, þá eigum við já að reyna að hraða meðferðinni, vegna þess að í dag erum við að jafnaði að halda uppi meðan á málsmeðferðinni stendur um það bil 500 manns og verjum til þess um 4 milljörðum á ári.

Og við verðum að horfa í þessar tölur um leið og við höfum skýra afstöðu til þess að við Íslendingar ætlum að axla okkar ábyrgð með öðrum löndum í heiminum til þess að koma þeim til aðstoðar sem eru að flýja hörmulegar aðstæður,“ segir Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra.