Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Man Utd aftur á beinu brautina

epa08754214 Manchester United's Bruno Fernandes (back R) scores the 2-1 lead during the English Premier League soccer match between Newcastle United and Manchester United in Newcastle, Britain, 17 October 2020.  EPA-EFE/Alex Pantling / POOL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - GETTY POOL

Man Utd aftur á beinu brautina

17.10.2020 - 21:01
Frábær lokakafli tryggði Man Utd nokkuð öruggan 4 - 1 sigur á Newcastle í lokaleik dagsins. Síðustu þrjú mörk Man Utd í leiknum komu á síðustu fjórum mínútunum.

Newcastle United tók á móti Manchester United í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Miklar vangaveltur voru fyrir leik hvernig Ole Gunnar Solskjær myndi stilla upp byrjunarliði Man Utd og voru nokkrar óvæntar breytingar á liðinu frá síðasta leik liðsins í deildinni. Paul Pogba settist á bekkinn og Victor Lindelöf kom aftur inn í byrjunarliðið á kostnað Eric Bailly. 

Heimamenn byrjuðu leikinn af krafti og eftir rúmlega mínútu áttu þeir góða skyndisókn sem endaði með marki. Jeff Hendrick átti þá fyrirgjöf sem hafnaði í Luke Shaw og af honum fór boltinn í netið. Á 20. mínútu var komið að Bruno Fernandes að skora. Hann fékk þá boltann frá Juan Mata og skoraði með góðu skoti en eftir að myndbandsdómari hafði skoðað markið betur var það dæmt af þar sem Juan Mata var í rangstöðu í aðdraganda marksins.

Leikmenn Man Utd héldu þó áfram að þjarma að Newcastle og á 23. mínútu var jöfnunarmark þeirra fullkomlega löglegt. Harry Maguire stangaði þá boltann í netið eftir hornspyrnu frá Juan Mata. Mikilvægt mark fyrir Maguire sem hefur átt ansi slæmar vikur undanfarið, bæði inn á vellinum og utan hans. 

Seinni hálfleikur fór fjörlega af stað og á 52. mínútu reyndist David De Gea hetja Man Utd þegar hann varði frábærlega frá Callum Wilson af stuttu færi. Þremur mínútum síðar féll Marcus Rashford við vítateig Newcastle og Craig Pawson, dómari leiksins, ákvað að skoða atvikið betur á skjánum. Í kjölfarið benti hann á punktinn og dæmdi vítaspyrnu. Bruno Fernandes tók vítið en Karl Darlow varði vel. 

Man United setti þunga pressu á Newcastle undir lok leiks og stíflan brást á 86. mínútu þegar liðið náði að sækja hratt. Juan Mata átti þá flotta sendingu á Marcus Rashford sem átti svo glæsilega hælsendingu á Bruno Fernandes sem lagði boltann laglega í netið úr þröngu færi. Stuttu síðar gulltryggði Aaron Wan-Bissaka sigur gestanna með þegar hann þrumaði boltanum í þaknetið eftir stoðsendingu frá Marcus Rashford. Það var svo Marcus Rashford sem sá sjálfur um að skora lokarmak leiksins eftir að hann fékk háan boltan innfyrir vörnina. Í sömu andrá var flautað til leiksloka.

Man Utd er í 14. sæti deildarinnar eftir sigurinn en liðið er með 6 stig eftir fjóra leiki. Newcastle situr í 11. sæti með 7 stig eftir fimm leiki.