Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Íslensk smit nákvæmlega 0,01% af heimsfaraldrinum

17.10.2020 - 12:33
epa08675045 A man wearing protective face mask walks in front of COVID-19 sampling station in Prague, Czech Republic, 17 September 2020. Czech Republic had record rise in COVID-19 infections from last week as country has third highest increase in Europe, after Spain and France.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Staðfest kórónuveirusmit hér eru nú orðin nær 4.000 síðan fyrsti sjúklingurinn greindist í vor. Það gera nákvæmlega 0,01 prósent af heildarfjölda greindra smita í heiminum. Um 40.000 hafa verið í sóttkví á einhverjum tímapunkti á Íslandi síðustu tæpa níu mánuði.

Austurland enn án smita

Tæplega 3.000 manns eru í sóttkví og fjölgaði um rúmlega 130 milli daga. Hins vegar fækkaði fólki í skimunarsóttkví um 150, og eru þeir ríflega 1320. Tæplega 1.250 manns eru skráðir í einangrun með Covid-19, fjölgaði um 36 milli daga, sem þýðir að 33 losnuðu úr einangrun í gær. 26 eru á sjúkrahúsi, fjórir á gjörgæslu. Nýgengi innanlandssmita hækkar stöðugt og er nú komið yfir 291. Af þeim 69 sem greindust í gær voru einungis 15 utan sóttkvíar og hefur sú tala ekki verið jafn lág í tæpar þrjár vikur. Austurland er, sem fyrr, eini landshlutinn sem virðist vera laus við smit. 

Gífurlegur fjöldi sýna hefur verið tekinn á Íslandi síðan í mars, ríflega 160 þúsund. Tæplega fjörutíu þúsund manns hafa verið í sóttkví á einhverjum tímapunkti á Íslandi. 

40 milljón smit í heiminum

Fjöldi skráðra kórónuveirusmita í heiminum nálgast nú óðfluga 40 milljónir. Meira en 1,1 milljón hefur látið lífið, langflestir í Bandaríkjunum, tæplega 225 þúsund manns, rúmlega 60 prósent af íbúafjölda Íslands. Þar eru sömuleiðis flest smit skráð, 8,3 milljónir.  

3998 smit hafa greinst á Íslandi, sem er nákvæmlega 0,01% af skráðum smitum í heiminum, þegar þetta er skrifað, 39.7 milljónir, sem virðist ekki hátt hlutfall. En það er þó töluvert hærra en þegar litið er til íbúafjölda. Jarðarbúar eru nú ríflega 7,8 milljarðar, þar af eru Íslendingar 365.000, sem er um 0,004% af íbúum heimsins. 

Stöndum hvorki vel né illa

Sé litið út fyrir landsteinana, situr Ísland í hundrað og fertugasta sæti yfir fjölda smita á heimsvísu. 217 ríki eru á lista World o Meter, þannig að við erum vel fyrir neðan miðjuna. En á Íslandi hafa greinst fleiri smit en til að mynda á Tælandi, Lettlandi, Kýpur og Nýja Sjálandi. Fjöldi látinna hér er þó töluvert lægri en víða annarsstaðar. Til dæmis á Nýja Sjálandi, þar sem búa um fimm milljónir, hafa greinst um 1900 smit, en 25 látist af völdum Covid 19.

Varðandi skráð dauðsföll á heimsvísu, er Ísland í 172. sæti, en ellefti sjúklingurinn lést hér í fyrrinótt, kona á níræðisaldri. Skemmtiferðarskipið Diamond Princess, sem er skráð sem sjálfstætt ríki á síðunni, er í 171. sæti varðandi fjölda dauðsfalla, en þar létust 13 farþegar úr sjúkdómnum. Enginn hefur látist úr veirunni í Færeyjum, í Vatíkaninu, á Grænlandi eða í Kambódíu, svo dæmi séu tekin, samkvæmt tölunum. Sé sætum raðað eftir íbúafjölda ríkjanna, er Ísland í 177 sæti af 217.