Guðmundur áfram í stjórn evrópska blaksambandsins

Mynd með færslu
 Mynd: CEV

Guðmundur áfram í stjórn evrópska blaksambandsins

17.10.2020 - 10:03
Guðmundur Helgi Þorsteinsson var í gær endurkjörinn í stjórn evrópska blaksambandsins á ársþingi sem haldið var í Vínarborg.

Ársþing CEV, evrópska blaksambandsins, var haldið í Vínarborg í gær. Upphaflega átti ársþingið að vera haldið í Rússlandi en var fært vegna kórónuveirufaraldursins. Ákveðið var að halda þingið þrátt fyrir aukningu smita í Evrópu en um svokallað kosningaþing var að ræða og það því mikilvægt upp á skipulag blaktímabilsins í Evrópu.

Blaksamband Íslands ákvað að senda engan fulltrúa á þingið í ár og kom það í hlutverk færeyska sambandsins að fara með atkvæði Íslands a þinginu. Guðmundur Helgi var þó á þinginu enda í endurkjöri í stjórn CEV. Í fyrstu umferð kosninganna kom í ljós að Guðmundur hefði náð endurkjöri og verður hann því í stjórn CEV næstu fjögur árin. 

Tveir voru í framboði til forseta CEV. Aleksander Boricic óskaði eftir endurkjöri og fékk mótframboð frá Hanno Pevkur. Boricic fékk 36 atkvæði gegn 19 atkvæðum Pevkur og var hann því endurkjörinn forseti sambandsins.