Fjögur mörk og umdeildir dómar í Bítlaborginni

epa08752392 Jordan Pickford of Everton (C) challenges  Virgil van Dijk of Liverpool (L) during the English Premier League match between Everton and Liverpool in Liverpool, Britain, 17 October 2020.  EPA-EFE/Peter Byrne/ POOL EDITORIAL USE ONLY. No use with unauthorized audio, video, data, fixture lists, club/league logos or 'live' services. Online in-match use limited to 120 images, no video emulation. No use in betting, games or single club/league/player publications.
 Mynd: EPA-EFE - PA POOL

Fjögur mörk og umdeildir dómar í Bítlaborginni

17.10.2020 - 14:01
Líkt og áður í vetur var myndbandsdómgæslan í aðalhutverki í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni þar sem Everton og Liverpool gerðu jafntefli. Mark Jordan Henderson á 92. mínútu leiksins var þá dæmt af vegna rangstöðu.

Nágrannafélögin Everton og Liverpool mættust í baráttuleik um Bítlaborgina í fyrsta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Í síðustu umferð fyrir landsleikjahlé sigraði Everton lið Brighton með fjórum mörkum gegn tveimur á meðan að Liverpool steinlá gegn Aston Villa, 7 - 2. Sadio Mané og Thiago snéru aftur í byrjunarlið Liverpool í dag eftir að hafa jafnað sig á COVID-19 en Gylfi Sigurðsson byrjaði á varamannabekk Everton í dag. 

Leikurinn fór afar fjörlega af stað en strax á þriðju mínútu leiksins skoraði Sadio Mané fyrir gestina eftir góða sendingu frá Andy Robertson. Aðeins tveimur mínútum síðar vildu leikmenn Liverpool fá vítaspyrnu. Jordan Pickford, markvörður Everton, braut þá illa á Virgil Van Dijk innan teigs. Flaggið fór hinsvegar á loft og rangstaða dæmd sem svo var staðfest eftir að atvikið var skoðað í VAR. Everton slapp því með skrekkinn enda hefði Pickford líklegast fengið að fjúka útaf hefði rangstaðan ekki verið dæmd. Í staðinn þurfti Van Dijk að fara útaf sökum meiðsla eftir brotið. 

Á 20. mínútu kom jöfnunarmark Everton. James Rodriguez tók hornspyrnu sem rataði beint á kollinn á Michael Keane sem átti fastan skalla beint á Adrian í marki Liverpool. Adrian náði hinsvegar ekki að slá boltan frá marki heldur upp í þaknetið. 

Þrátt fyrir ágætis sóknartilburði beggja liða tókst hvorugu liðinu að bæta við marki í fyrri hálfleik og því jafnt þegar flautað var til hálfleiks. Everton komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og Richarlison átti fína tilraun sem Adrian varði í stöng. Á 72. mínútu komst Liverpool aftur í forystu með marki frá Mo Salah, en þetta var hans 100. mark fyrir liðið. Strax eftir markið gerði Ancelotti breytingu á liði Everton og kom þá Gylfi Sigurðsson inn á. Tæplega tíu mínútum síðar jafnaði Dominic Calvert-Lewin leikinn með frábæru skallamarki. 

Dramatíkin var þó bara rétt að byrja en á 89. mínútu fékk Richarlison rauða spjaldið eftir groddaralega tæklingu á Thiago. Á 92. mínútu skoraði Jordan Henderson eftir góðan undirbúning frá Mané. Eftir mikinn fögnuð leikmanna Liverpool var hinsvegar ákveðið að skoða mögulega rangstöðu á Mané í aðdraganda marksins. Eftir miklar vangaveltur var markið dæmt af og lokatölur urðu því 2 - 2.