Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ardern og Verkamannaflokkurinn ná meirihluta á þingi

17.10.2020 - 07:37
New Zealand Prime Minister Jacinda Ardern answers questions during a press conference in Christchurch, New Zealand, Wednesday, Oct. 14, 2020. Opinion polls indicate Ardern is on track to win a second term as prime minister in an election on Saturday. (AP Photo/Mark Baker)
 Mynd: AP
Kjörstöðum var lokað á Nýja Sjálandi klukkan sex í morgun að íslenskum tíma og fyrstu tölur benda til þess að spár um öruggan sigur forsætisráðherrans Jacindu Ardern og Verkamannaflokksins í þingkosningunum muni ganga eftir. Þegar búið var að telja 10 prósent atkvæða var útlit fyrir að flokkurinn fengi 65 af 120 þingsætum og Ardern því ekkert að vanbúnaði að mynda ríkisstjórn án annarra flokka, en hún hefur farið fyrir meirihlutastjórn Verkamannaflokks og mið-hægri flokks síðustu þrjú árin.

Sterk í mótbyr

Vinsældir Ardern jukust mjög í kjölfar hryðjuverkaárásar ástralsks rasista og hægri öfgamanns á tvær moskur í Christchurch í mars á síðasta ári, þar sem viðbrögð hennar þóttu til mikillar fyrirmyndar. Samdráttur í efnahagslífinu varð þó til þess að mjög tók að draga saman með Verkamannaflokknum og helsta keppinauti hans, Þjóðarflokknum.

Vaskleg framganga Ardern í baráttunni við kórónaveirufaraldurinn varð svo til þess að vinsældir hennar jukust hratt og mikið á ný og tryggði henni og flokki hennar að því er virðist næsta öruggan sigur í kosningunum.

Meirihluti kaus utan kjörfundar

Upphaflega stóð til að halda kosningarnar 19. september en þeim var frestað þegar fátítt COVID-19 hópsmit kom upp í Auckland. Meirihluti kjósenda kaus utan kjörfundar að þessu sinni, 1,9 milljónir af þeim 3,5 milljónum sem eru á kjörskrá. Svo margir hafa aldrei áður kosið utan kjörfundar á Nýja Sjálandi.

Kosið um dánaraðstoð og kannabis

Samhliða þingkosningunum fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um lögleiðingu tveggja afar ólíkra fyrirbæra; dánaraðstoðar og sölu og neyslu kannabisefna. Búist er við að úrslit þingkosninganna liggi nokkurnveginn fyrir áður en laugardagurinn er á enda runninn, en niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslnanna verða ekki kynntar fyrr en 30. október. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV