Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Yfir 30.000 smit í Frakklandi á fimmtudag

16.10.2020 - 01:20
epa08675045 A man wearing protective face mask walks in front of COVID-19 sampling station in Prague, Czech Republic, 17 September 2020. Czech Republic had record rise in COVID-19 infections from last week as country has third highest increase in Europe, after Spain and France.  EPA-EFE/MARTIN DIVISEK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Kórónaveirusmitum í Frakklandi fjölgaði mikið milli daga og voru yfir 30.000 ný tilfelli staðfest þar í gær. Hafa þau aldrei verið fleiri á einum sólarhring frá því að farsóttin hóf innreið sína í landið í vetur sem leið. 30.621 smit greindist í gær, en 22.591 daginn þar á undan.

Strangt útgöngubann að viðlögðum háum sektum

Faraldurinn hefur verið í miklum vexti í Frakklandi að undanförnu og í gær tilkynntu yfirvöld róttækar aðgerðir sem ætlað er að draga úr útbreiðslu veirunnar.

Frá og með laugardeginum mun strangt útgöngubann vera í gildi frá klukkan níu á kvöldin til sex á morgnana í níu stærstu borgum landsins, þar á meðal marseille, Lyeon og höfuðborginni París. Þau sem eru staðin að því að brjóta gegn banninu verða sektuð um 135 evrur við fyrsta brot, um 22.000 íslenskar krónur, og 1.500 evrur, ríflega 200.000 krónur, fyrir ítrekuð brot.

Farsóttin í hröðum vexti í Evrópu

Og Frakkland er ekki eina Evrópulandið þar sem metfjöldi smita var staðfestur í gær, því fleiri greindust með COVID-19 í Póllandi, Þýskalandi og Ítalíu en nokkru sinni fyrr frá því að tekið var að skima fyrir veirunni með skipulegum hætti á landsvísu. Þá létust fleiri úr COVID-19 í Rússlandi en nokkru sinni fyrr á einu sólarhring, eða 286. um og yfir 1.000 manns deyja nú úr COVID-19 í Evrópu á degi hverjum.